Bæjarhátíðin Sumar á Selfossi hefst í dag með tónleikum og skemmtun í miðbæ Selfoss. Fjölbreyttir viðburðir verða í bænum alla helgina.
Það er Knattspyrnufélag Árborgar sem stendur að hátíðinni í samstarfi við sveitarfélagið en hátíðin er fyrst og fremst hátíð heimamanna, þar sem maður er manns gaman. Íbúar skreyta húsin sín í litum hverfanna og skemmtilegasta gatan á Selfossi verður verðlaunuð.
Í kvöld eru fjölskyldutónleikar með Jóni Jónssyni í Sigtúnsgarði, BMX Brós mæta á svæðið, Pubquiz verður á Brúartorgi og strax á eftir samsöngur með Guðrúnu Árnýju.
Á föstudagskvöld verða risatónleikar með Stuðlabandinu, Jóhönnu Guðrúnu og Sverri Bergmann og á laugardagsmorgun mætir fólk ferskt í Brúarhlaupið. Fjölskyldudagskrá og handverksmarkaður verður í Sigtúnsgarði eftir hádegi á laugardag og í eftirmiðdaginn er hin gríðarlega vinsæla menningarganga sem nú verður gengin um Mjólkurbúshverfið.
Á laugardagskvöldið er komið að hápunkti hátíðarinnar sem er sléttusöngur í Sigtúnsgarði og að honum loknum er sveitaball með Stuðlabandinu í hátíðartjaldinu.
Olísmótið er á Selfossvelli alla helgina og úrslitin þar fara fram á sunnudeginum. Á sunnudagsmorgun verður einnig keppt í sprett þríþraut. Eftir hádegi verður fjölskyldu Pubquiz á Brúartorgi og fjölskyldubíó í Bíóhúsinu.