Það koma alltaf aftur jól

Helga Margrét Clarke

Fyrr í mánuðinum sendi Björgvin Þ. Valdimarsson frá sér nýtt jólalag með söngkonunni Helgu Margréti Clarke. Lagið heitir Það koma alltaf aftur jól og er lag og texti eftir Björgvin, en þetta er sjöunda jólalagið sem hann sendir frá sér á fimm árum.

„Þegar kom að því að hljóðrita lagið þá var úr vöndu að ráða, þ.e.a.s. að finna söngvara sem réði við að syngja það, því lagið hefur mjög vítt raddsvið. Eldri dóttir mín fylgist mjög vel með tónlistarbransanum og þar með allri nýrri útgáfu á íslenskri tónlist. Einn daginn í vor hringdi hún í mig og sagði: „Pabbi, þú verður að hlusta á þessa“. Ég spurði hana hvers vegna og fékk það svar að hún væri að gefa út sitt fyrsta lag og væri með frábæra rödd og héti Helga Margrét Clarke. Eftir að hafa hlustað á lagið, þá fannst mér að röddin væri komin sem hentaði laginu,“ segir Björgvin.

„Rétt seinna þá voru auglýstir tónleikar með henni í Fríkirkjunni sem ég fór á og þar söng hún margar af flottustu og erfiðustu perlum Gunnars Þórðarsonar af stakri snilld. Þarna var ég endanlega sannfærður og í framhaldinu hafði ég samband við hana og hér er afraksturinn af okkar samstarfi.“

Textinn fjallar um þá ímynd sem jólin hafa í hugum flestra þegar þau eru hringd inn á aðfangadag, þ.e.a.s. kyrrð, frið, nýfallinn snjó, stjörnubjartan himinn og samveru með fjölskyldu og vinum. Síðast en ekki síst gleðjum við hvert annað með gjöfum, góðum mat og jólaljósum sem lýsa upp skammdegið sem verður til þess að við þráum að upplifa jólin aftur og aftur.

Björgvin Þór leikur sjálfur á píanó í laginu og dóttir hans, Helga Þóra, spilar allar fiðluraddirnar. Stjórn upptöku, hljóðblöndun og mastering var í höndum Vilhjálms Guðjónssonar, sem einnig leikur á rhodes, rafmagnsbassa, trommur, slagverk og gítar.

Bakraddir syngja Gunnur Arndís Halldórsdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Helga Margrét, Gísli Magna, Carlos Caro Aguilera og Björgvin Þór sjálfur.

Fyrri greinRafmagnslaust í Hrunamannahreppi
Næsta greinGul jólaviðvörun: Varasamt ferðaveður