Árný Hrund Svavarsdóttir á Hvolsvelli svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég myndi nú segja að ég sé nú meiri jólaálfur en skröggur. Þetta er minn uppáhalds tími.
Uppáhalds jólasveinn? Ætli það sé ekki Stúfur, kannski af því ég er frekar lágvaxinn sjálf.
Uppáhalds jólalag? Jólalögin eru mörg uppáhalds en ætli það sé ekki Driving Home For Christmas. Svo eru nokkur jólalög með Stebba Hilmars í uppáhaldi eins og til dæmis Dag einn á jólum.
Uppáhalds jólamynd? Það er Miracle on 34th Street. Hún er svo ljúf.
Uppáhalds jólaminning? Jólaminningarnar úr æsku eru margar og hugljúfar og desember allur sveipaður minningum. Þegar húsið byrjaði að anga af bakstursilm og farið var að skoða með jólaföt og þegar kom að aðfangadegi og farið var með pakka og kort. Já, það var mikið af kortum til vina og vandamanna. Mamma var svo búin að skreyta húsið hátt og lágt, og þá meina ég hátt og lágt því loftin voru skreytt líka. Svo klukkan sex á aðfangadag hringdu inn jólinn og messan í útvarpinu byrjaði og opnaðar voru stofudyrnar og þar stóð tréð skreytt með pökkum undir og á borðum skálar með ávöxtum og nammi. Þetta var ævintýralegt og svo fallegt en mikið var dagurinn alltaf lengi að líða.
Uppáhalds jólaskraut? Jólaskrautið sem er mér kærast eru bjöllur sem héngu alltaf heima hjá mömmu og ég held mikið uppá. Sem barni þóttu mér þær vera ævintýralegar og gat horft á þær endalaust enda glitraði á þær og þær spegluðust með allskonar munstri á veggin. Þær eiga heiðurssess hjá mér um jól.
Minnistæðasta jólagjöfin? Það er dúkkuvagga sem ég fékk ein jólin. Hún var bleik og úr plasti og var hægt að vagga henni. Lengi geymdi ég hana þó hún væri löngu brotin en ég er búinn að láta hana núna en hún var svo falleg.
Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Það koma ekki jól nema ég, Vestfirðingurinn, fái skötu á Þorláksmessu. Hér áður sauð ég hana alltaf heima en núna fer ég í skötu í hádeginu í Björkina Hvolsvelli.
Hvað er í jólamatinn? Hjá okkur er svínahamborgarhryggur á aðfangadag. Og svo hangikjöt á jóladag.
Ef þú ættir eina jólaósk? Jólaóskina mína fæ ég uppfyllta að stórum hluta þessi jólin þegar dætur mínar og fjölskyldur verða hjá mér um jólin. Ég hlakka mikið til. Annars er alltaf óskin um frið á jörð og að fólk reyni að njóta hátíðarinnar með fjölskyldum sínum. Og að lokum óska ég öllum gleðilegra jóla og óska að nýja árið verði þeim farsælt.