Félagarnir í Hr. Eydís sendu frá sér nýja ylvolga ábreiðu í gær. Þeir halda áfram með bíómyndalögin en lag vikunnar eru Don´t You (Forget About Me) með Simple Minds var leikið í myndinni The Breakfast Club frá 1985.
Það leit þó lengi vel út fyrir að Simple Minds myndu ekki flytja lagið. Þeir höfðu ekki samið lagið sjálfir og voru því tregir til þegar fyrirspurnin kom. Leitað var því til Bryan Ferry sem sagði nei, meira að segja Billy Idol fékk fyrirspurnina. En á endanum létu þeir félagar í Simple Minds til leiðast og sáu ekki eftir því. Söngvarinn Jim Kerr bætti „Hey, hey, hey, hey…“-kaflanum við í lagið og „the rest is history“.
„Þetta er eitt af þessum ´80s lögum sem allir þekkja, en segja má að lagið sé eitt af einkennislögum áratugarins,“ segir Örlygur Smári og bætir við að „það öskursungu þetta allir á skólaböllunum í Hagaskóla á sínum tíma og hoppuðu í takt. Sama reyndar gerðist þegar við lékum þetta síðast á tónleikum. Þetta er stórkostlegt lag!“