Hinn óviðjafnanlegi breski sönghópur The King’s Singers kemur til Íslands og heldur tvenna tónleika; í Hörpu, og í Skálholtskirkju. Tónleikarnir í Skálholti verða fimmtudaginn 17. september, kl. 18.00.
Það var ósk The King’s Singers að syngja tvenna tónleika og tóku þeir fagnandi tillögu um að syngja í Skálholtskirkju.
Fyrir hina fjölmörgu aðdáendur King’s Singers eru þetta góðar fréttir og verður efnisskrá þeirra sérstaklega sett saman fyrir kirkjuna og seinni hluta hennar velja þeir þegar þeir hafa kynnt sér hljómburð kirkjunnar. Þann hluta kalla þeir tónlistarpóstkort frá öllum heimshornum.
Það má því búast við einstöku lagavali ásamt þeirri nánd við flytjendur sem Skálholtskirkja býður upp á.
Tónleikarnir hefjast kl. 18.00 (ath. óvenjulegan tíma), sætafjöldi er takmarkaður við 350 sæti og verð allra aðgöngumiða er kr. 7.900.- Sætaval er frjálst.
Verði hagnaður af tónleikunum, rennur hann í sjóð Skálholtsfélagsins hins nýja, til styrktar viðgerð á steindum gluggum Gerðar Helgadóttur í Skálholtskirkju.
David Hurley 1. kontra-tenór hefur sungið með hópnum lengst eða síðan árið 1989 en aðrir söngvarar eru Timothy Wayne-Wright kontra-tenór, Julian Gregory tenór, Christopher Bruerton og Christopher Gabbitas baritónar og Jonathan Howard bassi.
The King´s Singers sextettinn var stofnaður árið 1968 og heldur á annað hundrað tónleika á ári víðs vegar um heiminn. Upptökur á geisladiskum skipa stóran sess hjá hópnum. Efnisval King´s Singers er sérlega fjölbreytt og á 50 ára ferli hefur hann gefið út yfir 150 diska með yfir 2000 lögum. Hópurinn hefur frumflutt yfir 200 verk, m.a. eftir tónskáldin John Tavener, Eric Whitacre, Bob Chilcott og marga fleiri. King’s Singers hafa alla tónlistarstíla á valdi sínu, og syngja jafnt lög Bítlanna sem Bach og einnig syngja þeir heilu hljómsveitarverkin og er jafnan stutt í glensið, þó glæsileikinn sé alltaf í fyrirrúmi.