Aðventan er tími æskuminninga sem áttu sér stað fyrir mörgum árum, þessum stað þar sem sjónvarpið er svarthvítt, allar ömmur og allir afar eru á lífi – og stöku langömmur líka, mömmur gera heimagerðan rjómaís í kökuformum og pabbar fara í margra klukkustunda löng böð. Þetta er tíminn þegar fólk sendir jólakveðjur um allar koppagrundir og fjölskyldan fer í kirkju klukkan sex á aðfangadag. Þetta eru árin þegar öll bæjarfélög eru á kafi í himinháum snjósköflum um jólaleytið og vegheflar aka um borg og bí til að halda götunum hreinum fyrir Volvóa og Lödur á keðjum.
Jólin eru svo sannarlega tíminn þegar barnið innra með manni lætur á sér kræla. Mörg jól í æsku minni eru eftirminnileg, sum betur en önnur. En svo er það auðvitað eins með æskuminningarnar og önnur skemmtilegheit, margt er að gerjast í ungum heila og á hann það til að hræra atburðum sem gerast á mörgum árum í einn graut. Úr minningunum verða til ein ansi góð jól sem vert er að rifja upp. Eins konar slagarasafn með lögum Labba í Glóru á einni plötu.
Ég átti heima á Selfossi eiginlega alla æskuna. Við fjölskyldan fluttum þangað frá Hafnarfirði árið 1974 þegar ég var þriggja ára. Ég hafði þess vegna ekkert um flutninginn að segja. Hvorki af né á. Þá eins og nú var allt í gangi í bæjarfélaginu. Nóg var plássið á engjum og túnum á flatneskjunni sem bærinn óx upp úr suðureftir Tryggvaskála. Húsin spruttu hvert á fætur öðrum upp úr jörðinni eins og gulrætur og voru tekin að mynda nokkur hverfi. Þrjár blokkir risu við Fossheiði. Þær voru langhæstu byggingarnar á Selfossi, gnæfðu hátt yfir húsin í næstu götum þegar við fjölskyldan fluttum í bæinn. Við fluttum í geysistóra splunkunýja tveggja hæða blokk með þremur stigagöngum, sex íbúðum á hvorum gangi. Við bjuggum á efstu hæðinni í endaíbúð í Fossheiði 58. Ingólfsfjall blasti alltaf við út um stofugluggann. Á stilltum hátíðarkvöldum mátti líka sjá litrík ljósin frá húsunum á Stokkseyri og stöku norðurljós á köldu kvöldunum. Reyndar var fátt annað að sjá nema sjóndeildarhringinn – og náttúrulega Heklu í austri. Ekki sáum við suður til Eyrarbakka og til Hveragerðis því hinar blokkirnar tvær á bak við okkur skyggðu á útsýnið. Fleiri blokkir áttu síðar eftir að rísa þarna í nágrenninu með tilheyrandi útihúsum og fleiri hæðum en í okkar blokk.
En þá vorum við flutt í nýtt hverfi og nýtt hús.
Jólin 1980 voru einn af þessum viðburðum sem lifa í minningunni. Þá lá líka eitthvað í loftinu. Vigdís Finnbogadóttir hafði verið kosin forseti um sumarið. Myntbreyting beið þjóðarinnar eftir áramótin þegar tvö núll voru strikuð út aftan af krónunni. Svakaleg spenna lá undir öllu yfir því að fá splunkunýja peninga með upphleyptum myndum af flatfiskum, Jóni Sigurðssyni, forseta Bókmenntafélagsins og fleiru skemmtilegu. Þetta var líka fyrsta árið sem margir fóru til útlanda. Það gerðum við, fórum í dönsku sólstrandarparadísina Karlslunde. Þaðan kom ég heim með leikfangabyssu, það nýjasta nýtt, sambyggt útvarps- og kassettutæki með stereói og kassettu með Goombay Dance Band sem tók að streyma úr þessu tækniundri þar til spólan flæktist í tækinu í byrjun hausts.
Jólin 1980 var ég níu ára. Á hverjum aðfangadegi – áreiðanlega frá fyrsta ári – höfðum við systkinin fengið hvert í sinn skóinn frá jólasveininum. Til viðbótar fengum við sérstaka gjöf til okkar allra á aðfangadegi. Gjöfin var hengd upp á jóladagatal sem mamma saumaði út og hékk á milli herbergjanna okkar, klukkustreng með jólamyndum. Þennan aðfangadag árið 1980 var áreiðanlega Lego á strengnum af því að það fékkst ekki í Kaupfélagi Árnesinga.
Á þessum aðfangadegi eins og öðrum var pabbi áreiðanlega nýkominn heim ofan af fjöllum þar sem hann smíðaði virkjanir með fleiri feðrum frá Selfossi úr nærliggjandi flóum og hreppum, stærðarinnar apparöt á heiðum, sem bjuggu til rafmagnið á jólaseríurnar okkar. Mamma hafði fyrir aðfangadag eins og alltaf staðið í ströngu og þurrkað af öllu og gert svakalega hreint fyrir jólin, gott ef hún saumaði ekki líka ný föt á okkur krakkana fyrir hver jól. Hún stagaði í það sem slitnað hafði og setti í hverja vélina á fætur annarri. Mamma vann alla daga á leikskóla og á jólunum þurfti hún stundum að fara í leikskólann fyrir hádegi á aðfangadag að passa börn annarra sem þurftu að vinna þennan dag fram að hádegi.
Við krakkarnir vöknuðum eins og alla daga fyrir klukkan sjö. Við kíktum hvert okkar í skóinn í glugganum og síðan á jólastrenginn frammi á gangi. Eftir það fengum við okkur Kókópuffs í morgunmat en fórum síðan út að gefa ánum. Á þessum tíma eymdi enn eftir af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Svo lifandi og sterkur var viljinn að standa á eigin fótum að fólk átti enn sín fjárhús og hlöður. Fólk sem þótt sterkefnað hélt hesta í görðum sínum og byggði hesthús við bílskúrinn. Á sumrin mátti stundum sjá börn reka kýr í haga áður en þau fóru á fótboltaæfingu hjá ungmennafélaginu. Á leiðinni heim tóku þau kýrnar í leiðinni.
Á Selfossi í áttunni tíðkaðist að hver stigagangur ætti sitt fjárhús úti í garði, fé á fæti sem fólk gæti nýtt af í lopapeysur á köldum vetrum og til matar á stórhátíðum. Ef fjölgunin var umfram getu var hringt eftir bíl í Sláturhúsinu og gátum við þá þreytt góðan þorra. Í sumum blokkum þar sem andinn var góður var sameiginlegt fjárhús fyrir alla stigagangana þrjá. Við áttum þrjátíu sauði saman íbúarnir í Fossheiði 58 og voru þeir í sama húsi með þeim í 60 og 62. Sambyggt fjárhúsunum voru litlar hlöður líkust smáhýsum sem stóðu föst upp við fjárhúsin.
Svona var nú gott sambandið á milli okkar íbúanna í húsfélaginu.
Mikilvægt var í þessu góða samlífi að sjá vel um féð svo það nýttist öllum. Feður okkar krakkanna fóru í fjárhúsin snemma í aðventunni að velja feita jólasauði, sem senda átti í sláturhúsið. Valið fór fram í tveimur hollum og stóð lengi yfir í hvert sinn. Þetta voru erfiðir fundir enda úr mörgu úrvalsfé að velja. Feður okkar komu oft seint heim og reikandi af þessum löngu valfundum.
Okkar gjafatími í fjárhúsunum fylgdi sama plani og ryksugun á stigaganginum. Þetta var sumsé á sex vikna fresti. Við klæddum okkur upp í þykkasta dress, fætur fóru í bomsur, húfur á höfuð og lúffur á lófa og síðan skelltum við okkur út í hríðina til að gefa ánum. Það var auðvitað vont veður þennan aðfangadag eins og alla aðra daga um þetta leyti í
æskuminningunum. Allur bærinn var á kafi í snjó. Formaður húsfélagsins, sem alltaf vaknaði á undan öðrum, var nú eins og aðra daga búinn að moka tvær þvengmjóar og himinháar slóðir frá útidyrum blokkarinnar. Önnur leiddi fólk út á bílastæðið þar sem allir bílarnir voru undir snjó en hin fór til vinstri og á bak við blokkina og greiddi götu okkar krakkanna í fjárhúsin.
Við þvældum okkur í gegnum þetta, gengum í beinni röð eftir slóðanum af því að ekki rúmaði hann tvö okkar hlið við hlið. Það var auðvitað nístingskalt eins og alltaf allan veturinn í æsku minni á Selfossi. Ekki bætti andvarinn úr skák því engin voru fjöllin og hólarnir til að draga úr vindinum sem fékk að ganga lausum hala um allt Selfoss. Hann kleip í allar kinnar sem fyrir urðu.
Þetta haust hafði stærðfræðin eitthvað flækst fyrir besta fólki. Hausatalning benti til að fé vantaði í hús. Erum við að tala um sauðaþjófnað hér? Á Selfossi af öllum stöðum? Hægan nú! Þetta var ekki Reykjavík þar sem húsdýrum var stolið á næstum hverju götuhorni. Eftir því sem leið á haustið fór fé að hverfa hvert á fætur öðru í ýmsum bæjarhlutum, gimbur úr Vallholti, fjögurra vetra hrútur af Kirkjuveginum og stöku lamb úr Ártúni. Þetta gekk auðvitað ekki. Dagskráin birti fréttir af málinu í hverri viku. Lesendur sendu inn bréf til að tjá sig um þennan hræðilega ósóma, að stela sauðum fólks. Fólk hafi ekki séð slíkt ódæði í langan tíma. Síðast hefði líklega sést til sauðaþjófa í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Eins og mörg okkar muna var árið 1980 aðeins ein sjónvarpsstöð og ein útvarpsstöð og í báðum þeirra sögðu þeir Pétur Pétursson og Ómar Ragnarsson sömu fréttirnar alla daga nema fimmtudaga þegar Ómar fékk frí, af því að í þá daga voru engar sjónvarpsútsendingar á þeim degi.
Þarna undir lok árs 1980 sendi nafnlaus lesandi á Selfossi bréf í Dagskránna, þar sem hann sagði frá því að hann hefði heyrt af því að þrír menn hefðu sést á vappi í bænum síðustu vikur. Þetta væru aðkomumenn, dökkir á hörund, líkir meðlimir Boney M., sem spiluðu á Hótel Sögu um árið. Bréfritari hafði greinilega aldrei komist í tæri við í Goombay Dance Band. Engin deili vissi hann á þessum mönnum. Hann vissi ekki hjá hverjum þeir störfuðu eða á vegum hverra þeir gætu verið þarna á vappi – nema ef vera kynni Votta eða Aðventista. Þeir hefðu verið svoleiðis á sig komnir. Trúarlegt yfirbragð á þeim. Ekki var vitað hvar þeir gistu eða hvort þeir þrifu sig almennilega því engar vísbendingar voru um að þeir hefðu sést í Sundhöll Selfoss.
Þetta haust afréðu sumir fjárhúsaeigendur að læsa hjá sér. Húsfélagið í Fossheiði 58 hafði haldið fund um málið og komist að þeirri niðurstöðu að bréfritarinn í Dagskránni væri ekki trúanlegur. Hann væri í hinum og þessum flokki, þau hjónin bæði reyndar – í flokki sem æskuminningin getur ekki með nokkru móti kallað fram en er áreiðanlega ekki lengur til – og hann hafi sent bréfið inn í pólitískum tilgangi. Markmiðið hafi verið með þessu. Að klekkja á einhverjum út af einhverju til að ná einhverju fram. Einfalt mál. En það sem mestu skipti, var að fjárhúsið var í garðinum okkar og betur sjá augu en auga og þess vegna væru afar litlar líkur á að nokkur myndi brjótast inn í fjárhúsið. Sumsé: Engar áhyggjur, ef ein til tvær gimbur hverfa. Húsfélagið myndi sjá um sína og enginn þyrfti að svelta. Í Fossheiði 58 var nóg til.
Fjárhúsið okkar var fullt af fé. Í minningunni var lyktin þar góð. Hún var djúp og grasmild, rík af sterkri angan. Ég hef verið á svínabúi í Hreppunum og komið inn á kjúklingabú og kannast vel við þá skrýtnu angan. Lyktin í fjárhúsi er þægileg. Kindur og hey snerta við mér inn að beini og beint í hjartastað í hvert sinn sem ég kem inn í slíkt.
En kannski er það bara minningin um fjárhúsin í æsku.
Fjárhús blokkarinnar og hlaðan líka voru eins og þau hafa verið á Íslandi frá upphafi. Þau rétt svo stóðu uppi á viljanum, veggirnir innfallnir, þakið skakkt, flestar stoðir farnar að fúna. Nýjustu spýturnar voru ekki árekstur tveggja heima heldur í alvöru viðhald þess gamla. Flest var fúið sem fúna gat.
Eins og í fjárhúsum og hlöðum nú voru gluggar aukaatriði. Arkitektar Íslands höfðu af einhverjum ástæðum ekki gert ráð fyrir gleri til að hleypa sólarljósi inn í nokkurt hús. Ekki nema í hæfilega miklu mæli. Þess vegna voru aðeins þrír litlir gluggar í fjárhúsinu og einn í hlöðunni. Sá síðasttaldi stóð lengst upp í rjáfri.
Fénu í fjárhúsinu var skipt niður eftir stigagöngum. Ekki þurfti flókna útreikninga til að skipta okkur niður til að auðvelda okkur systkinum verkið þennan aðfangadag. Við náðum okkur í slurka af heyi sem feður okkar höfðu fundið til kvöldið áður og gáfum á básana alveg frá fénu í Fossheiði 58 aftur til 62.
Við vorum hálfnuð með verkið þegar skyndilega brast á með skarkala í hlöðunni. Algjörlega óforvarandis. Það var engu líkara en heygaflar og hrífur hafi verið sett saman í hrærivél með skóflum og skaftpottum og öllu hrist saman með tilheyrandi hávaða.
Þetta var alveg skelfilegt!
Við hrukkum í kút, sauðféð líka og öll litum við inn í hlöðuna eins og strengd upp á þráð. Við gripum andann á lofti. Þögnin var þung og þrúgandi. Það eina sem við heyrðum var napur vindur sem nartaði í innfallna veggi fjárhússins og jarm úr bási Fossheiði 60.
Ég er elstur okkar systkina. Systur mínar bentu mér á með hljóðlausu handapati að það væri skylda mín að fara inn í hlöðuna og kanna málið. Ég hikaði auðvitað enda bara 9 ára, þær 8 og 6. Ég yrði náttúrulega 10 næsta vor.
Ef mér entist aldur.
Sem væri ekki endilega raunin myndi ég ganga inn í hlöðuna og deyja.
Klukkan var sennilega orðin átta þennan aðfangadagsmorgun, kannski níu. Loksins afréð ég að sparka hræðslunni út í hafsauga. Ég fetaði mig hægt meðfram öðrum vegg fjárhússins í átt að hlöðunni. Ég tiplaði hljóðlítið á tánum eins og ég hafði séð í Dýrlingnum á RÚV. En það sem blasti við mér sá Roger Moore áreiðanlega aldrei í sjónvarpsþáttunum. Þarna stóðu þrír menn í síðum litríkum, kuflum með barðastóra hatta á höfði.
Í sama mund og ég sá mennina skein jólasólin inn um skjáinn í rjáfrinu. Birtan kastaði ljóssúlu niður í hlöðuna og varpaði einkennilegum bjarma á þá. Eins og kastljósi hafi verið beint að þeim skáhalt að ofan frá vinstri.
Kindurnar hættu að jarma og heilagri þungri þögn sló yfir fjárhúsið og hlöðuna.
Í bjarma ljóssins sá ég að mennirnir voru hörundsdökkir eins og meðlimir Goombay Dance Band, öll í bandinu nema næpuhvíti brosmildi söngvarinn með permanentið, Þjóðverjinn Oliver Bendt. Þeir voru hávaxnir, með síð skegg og sítt hár sem liðaðist niður undan barðastórum höfuðfötum úr flaueli. Allir höfðu þeir grænleitar skikkjur á herðum sér.
Mennirnir voru í pokalegum buxum og einkennilega támjóum skóm sem ægilegt var að ganga á í snjó og hríð.
Einn mannanna lyfti hægri hönd sinni upp og benti til mín með tveimur fingrum, vísifingri og löngutöng en hina kreppta saman með þumalfingri yfir þeim.
Ekkert gerðist, enginn blossi skaust úr hönd mannsins. Hann stóð þarna bara grafkyrr í ljóskeilunni með handlegg á lofti.
Hve… Hverjir eruð þið? stamaði ég.
Sá með höndina og fingurna svaraði með sérkennilegum hreim. Hann skrollaði lítið eitt ofan í hreiminn: Við erum vitringar frá Austurlöndum. Við komum hingað til að afhenda nýfæddum frelsara vor fæddum í jötu heilagar gjafir. En sjá, á Selfossi eru mörg fjárhús, miklu fleiri en við gerðum okkur í hugarlund. Við höfum farið fjárhús úr fjárhúsi en ekkert fundið.
Ég kallaði til systra minna að koma.
Þótt ég hafi almennt verið fremur skelkað barn þá hræddist ég ekki mennina. Rót hræðslu minnar átti uppruna sinn í heimsóknum mínum til ömmu og afa í báða leggi. Í hvert sinn sem ég fór til þeirra leitaði ég uppi Þjóðsögurnar, og þær las ég mér til óbóta. Ég bar af því varanlegan skaða og yfirmáta myrkfælni að lesa um álfa og huldufólk, drauga og aðra uppvakninga, útilegumenn, galdrastafi og Skottur og Móra sem leyndust við hverja þúfu og á bak við hverja hurð. Ég var almennt hræddur við myrkur og skugga.
En ekki núna. Ég fann ekki til neinnar hræðslu við mennina þrjá.
Ég hræddist þá heldur ekki þótt þeir töluðu með þessum skrítna hætti um Jesúbarn. Það var auðvitað löngu fætt og löngu dáið. Eitt þúsund níu hundruð og áttatíu ár voru liðin frá fæðingu þess og stutt í tvö þúsund árin. Ég hafði lært um það í kristinfræði. Og ég vissi líka hvernig líf þess endaði. En það ætlaði ég ekki að segja þessum mönnum í hlöðunni.
Þeir höfðu greinilega aðrar upplýsingar en við – og allt aðrar væntingar.
Jesú, segiði?
Mennnirnir lutu allir höfði, þrír sem einn væru.
Ég trúði þeim auðvitað ekki og systur mínar ekki heldur.
Mennirnir, sem gáfu sig út fyrir að vera vitringar, sögðust komnir langt að og… Við höfum öll heyrt þá sögu áður. Þeir komu að austan og þess háttar. Lengra en frá Klaustur og Egilsstöðum, þar sem Stína, systir mömmu, bjó með Bjössa. Þeir hefðu verið lengi að. En tími þeirra senn á þrotum. Það styttist í að þeir yrðu að fara.
Það var vissulega svolítill Biblíukeimur af þessu. En enginn engill birtist okkur þarna í litlu hlöðunni á bak við blokkina okkar á aðfangadag árið 1980.
Kindurnar voru að byrja að jarma.
Í fjarska spilaði einhver jólaplötu Brunaliðsins á hæsta styrk þótt enn væri ekki komið að hádegi.
„…Í myrkri og kulda er gott að hlýja sér…“
Mennirnir sögðust svolítið ráðalausir. Þeir hefðu fylgt Pólstjörnunni þvers og kruss og hefðu séð að Selfoss væri staðurinn. Það ætti Jesúbarni að …. Þið vitið. Vera í jötunni.
En hvað með Jósef og Maríu mey? Við skildum ekki neitt í neinu enda bara krakkar sem voru að fara út í fjárhús að gefa fé. Ég var menntaðasti einstaklingurinn í hópnum, hálfnaður með fjórða bekk í Barnaskóla Selfoss. Guðbjörg var yngst, búin með tvo bekki. Hún var rétt svo byrjuð að líma glansmyndir í tímum. Ég man ekki með þær en ég hafði ekki farið í sunnudagaskóla.
Maðurinn sem talaði fyrir þremenningunum hélt áfram með sínum sérkennilega hreim: Við erum hérna með svolítið handa Jesúbarninu; myrru, reykelsi og gull.
Gull?!
Ég þekkti ekki hitt en hafði heyrt um gull enda séð Gullæðið með Chaplin í Tjarnarbíói.
Loksins komst hreyfing á hina tvo. Einn beygði sig aftur og tók fram þrjá trékassa. Viðurinn svipaði til tréverksins í fjárhúsinu. Hann var kominn á tíma. Sá þriðji steig nú fram, beygði sig og opnaði hvern þeirra og sýndi okkur ofan í. Fátt markvert var í tveimur fyrstu kössunum, brúnt og froðukennt efni sem lyktaði ágætlega. Svolítið eins og Þrastaskógur í þeim fyrsta en mosi í hinum. Sveit í kassa. Gullið þekkti ég undir eins. Þetta voru dökkir hnullungar, líkir máluðu grjóti.
Mennirnir sem gáfu sig út fyrir að vera vitringar létu okkur krakkana fá kassana þrjá með loforði um að við skyldum afhenda þá Jesúbarninu þegar það kæmi. Ég sagði þeim að það væri leikur einn. Við gætum gert það og þeir slakað á.
Farið heim, farið þangað sem þið þurfið.
Vitringarnir urðu himinlifandi, bugtuðu sig og beygðu og gengu svo fram hjá okkur úr hlöðunni, grænar skikkjur þeirra drógust á eftir þeim og tóku allan þann skít og sora með sér úr fjárhúsinu sem þær réðu við. Þeir mokuðu þessu öllu út um dyr fjárhússins. Þeir gengu út eftir slóðanum sem formaður húsfélagsins hafði mokað.
Þeir beygðu fyrir horn og fóru yfir Fossheiðina.
Við sáum vitringana þrjá aldrei aftur eftir þetta.
Fátt markvert og öðruvísi gerðist það sem eftir lifði þennan aðfangadag. Mamma kom heim úr leikskólanum um hádegið, pabbi fór í bað og gerði síðan við það sem þurfti, við kveiktum á Rás 1 – sem var eina útvarpsstöðin í þá daga – af því að það var skylda. Helga langamma okkar var þá enn á lífi. Hún bjó á Hofsósi, hafði eignast ellefu börn og barnabörn og aðrir angar orðnir hundrað og fimmtíu og eitthvað. Í stað þess að sitja við litla eldhúsborðið í litla húsinu sínu á Hofsósi og skrifa jólakort frá miðju sumri og fram í desember til allra afkomenda, sendi hún kveðjurnar á Rás 1. Þetta var skilvirk leið og við urðum að hlusta á allar heimsins kveðjur til að heyra þær frá langömmu til okkar allra.
Við sögðum foreldrum okkar frá vitringunum sem við hittum í hlöðunni.
Andskotinn, svaraði pabbi. Við hefðum þá átt að setja á hana lás.
Þegar kom að Maríu og Jósef og Jesúbarninu svaraði mamma:
Ætluðu þau að koma með rútunni? Það voru engar ferðir með sérleyfisbílunum í dag. Það vita allir. Þau hafa kannski komið í gær. Ef heiðin var þá opin. Hún vissi ekki með færð en miðað við hvernig var í bænum var enginn að fara neitt.
Við endurtókum sögur mannanna og sýndum þeim kassana þrjá. Þau tóku við þeim, ætluðu að geyma þá fyrir okkur. Þetta væri ekkert fyrir börn.
Við skyldum hafa auga með Jesúbarninu.
Eftir hádegið skrúfuðum við krakkarnir frá sjónvarpinu og horfðum á barnaefni, sem var afar fátítt. Þar horfðum við á úrvalsefni eins og Þyt í laufi og fleira gott, sem aðeins var sýnt á aðfangadag. Mamma og pabbi stússuðust inni í eldhúsi á meðan.
Síðan fórum við í messu í Selfosskirkju, mamma og pabbi hlustuðu á Sigurð prest og eftir það snæddum við jólasauðinn með rauðkáli, grænum baunum og brúnuðum kartöflum eins og allir íbúar blokkarinnar.
Þessi matur var jólin fyrir mér.
Brúnuðu kartöflurnar voru bestar í heimi.
Eftir matinn opnuðum við pakkana, við fengum kerti og spil frá ömmum og öfum og eitthvað fallegt frá öðrum. Hörðu pakkarnir komu frá mömmu og pabba. Við lékum okkur með legg og skel fram eftir nóttu. Yfirleitt fékk ég eina til tvær bækur, sem ég las þar til mig sundlaði af syfju inn í nóttina.
Tveimur árum eftir þessi jól fluttum við úr blokkinni okkar í Fossheiði 58. Hún var ekki lengur hæsta blokkin á Selfossi, pabbi hafði nokkrum mánuðum fyrr reist þriggja hæða blokk hinum megin við götuna. Við höfðum líka byggt hús nokkrum götum frá, risastórt einbýlishús í Suðurengi þar sem hvert okkar krakkanna fékk eigið herbergi. Meira að segja eitt herbergi var fyrir gesti, sem höfðu sérstakt aðgengi að sínu salerni. Herbergið breyttist reyndar fljótt í geymslu og aukasalernið varð að klósettlausri ruslakistu í mörg ár.
Það gerðist einmitt á aðfangadag árið 1983 að pest gekk yfir Selfoss. Systur mínar komust aldrei fram úr heldur lágu í sínum bólum. Við mamma og pabbi tóruðum daginn. Mamma hafði reyndar rétt náð að setja hátíðarmáltíðina í ofn þegar pestin náði tökum á henni og hún þurfti að ná í sína fötu og leggjast fyrir. Við pabbi stóðum vaktina tveir á aðfangadag.
Nú var annan tónn kominn í eldamennskuna en í blokkinni og lífið allt sosum. Fjárhúsin á Selfossi heyrðu sögunni til. Framsæknustu bæjarbúar voru farnir að rækta grænmeti í görðum sínum og sumir komnir með hænur. Við vorum í hópi þeirra sem höfðu smíðað pall og plantað þar heitum potti sem fékkst á útsölu.
Nú nenntum við ekki lengur að sitja á hörðum kirkjubekk og bíða spennt eftir sakramenti og guðsorði, klukknahljóm sem opnaði dyr jóla og þess háttar.
Allt var þetta gengið úr skorðum.
Við vorum nú komin með útvarp og gátum hlustað á þetta allt saman í hlýjunni heima.
En nú þegar árans pestin hafði sett strik í reikninginn hafði allt dregist von úr viti. Við höfðum misst af kveðju langömmu á RÚV, kirkjuklukkurnar höfðu hringt en við ekki heyrt þær. Klukkan var langt gengin í kortér yfir jól. Við vorum tveimur tímum á eftir gömlu áætluninni, áætlun sem tryggði að jólin væru alltaf eins.
Planið var ónýtt.
Við pabbi stóðum ráðalausir í eldhúsinu. Við stóðum í fyrsta sinn frammi fyrir því að vera með hamborgarhrygg í ofninum, rauðkál í krús, við kunnum að opna dós af grænum Ora-baunum og gátum bjargað okkur með það nauðsynlegasta sem þurfti á borðið.
Við kunnum báðir að lesa leiðbeiningar á sósupakkanum.
Þetta var sannkallað neyðarástand og við vorum upp að öxlum í því. Við ákváðum reyndar að til að auðvelda okkur verkefnið gætum við komist í gegnum jólamáltíðina án þess að bjóða upp á forrétt.
Ef við kynnum nú bara að búa til rækjukokteil í majónessósu með gúmmelaði… Af hverju að ráðast í það verkefni til að leggja á borð fyrir tvo?
Það var óþarfi.
Jólaveislan var næstum því klár.
Ísinn var í frysti.
Hamborgarhryggurinn í ofninum.
Grænar baunir í skál.
En hvað með brúnuðu kartöflurnar?
Þarna vorum við ráðþrota. Pabbi benti reyndar á að hann kunni að sjóða kartöflur. En átti að flysja þær fyrir eða eftir suðu? Það var óvíst. Ég flysja þær í dag áður en ég set þær í pottinn. En þarna var árið er 1983 og meira en tíu ár þar til ég fékk fyrsta tölvupóstinn. Við gátum ekki opnað neina leitarsíðu.
Við höfðum aðeins eina leið, við vissum að uppskriftabækur voru til á heimilinu.
En hvar skyldi nú mamma geyma þær?
Við gátum ekki spurt, kunnum ekki við það. Hún lá veik inni í rúmi eins og báðar stelpurnar.
Við fundum til pott og kartöflur og stóðum þarna í eldhúsinu og veltum fyrir okkur næstu skrefum.
Hvað gerði kartöflur brúnar? Sósa úr pakka?
Getum samt alveg borðað soðnar kartöflur. Við gætum sett smjör á þær…
En það var ekki jólamatur!
Eftir svolitla umhugsun ákvað pabbi að setja vatn í pott. En í sama mund og hann stóð yfir vaskinum og skrúfaði frá krananum brast á með lúðrablæstri út af götunni. Eins og himnarnir hefðu opnast og englar himins væru á leiðinni.
Veghefill brunaði eftir götunni og mokaði snjó yfir í garða sem við hana stóðu.
Hópur snjótitlittlinga flaug upp fyrir framan eldhúsgluggann. Pabbi sagði það óvenju fallegt.
Ég mundi ekki eftir því að hann hefði nokkru sinni notað slíkt orð.
Allt í einu hringdi dyrabjallan.
Við hrukkum báðir í kút og vonuðum að hávaðinn hefði ekki raskað ró sjúklinganna.
Hver hringir dyrabjöllunni klukkan sjö á aðfangadagskvöldi? spurði pabbi.
Úti var hríð eins og alltaf um jólin. Í áranna rás hafði samt snjóað minna. Nú var létt föl um allar götur og skafrenningur á heiðum. Snjótittlingar ráfuðu um í kringum heita pottinn á pallinum.
Það var enginn að selja neitt núna.
Við erum að hugsa um kartöflurnar, ætlum ekki að styrkja neitt núna, sagði pabbi. Hann rétti mér pottinn og fór fram að kanna með gestinn.
Ég stóð eftir inni í eldhúsi og fylgdist með því hvernig vatnið umlukti fimmtán óskrældar kartöflur.
Frammi í anddyri heyrði ég reytur af samtali pabba við gestinn.
…Myrru segirðu? Hvað er nú það? Nei, nei, við eigum ekkert reykelsi hér.
Gull? Jú… Bíddu.
Jón! kallaði hann. Komdu hér aðeins. Áttu við okkur orð.
Ég lagði frá mér pottinn á eldavélina en kveikti ekki undir og fór fram í anddyri.
Lítill drengur var að stíga inn fyrir þröskuldinn og pabbi lokaði hurðinni á eftir honum.
Drengurinn stappaði af sér snjónum í anddyrinu. Hann var með stórar þykkar kinnar sem voru eldrauðar inni í eldrauðum og alltof stórum norpara sem pokaðist utan um pjakkinn.
Drengurinn tók af sér þykkar lúffur og hettuna. Hár hans var kolbikasvart og stóð í allar áttir.
Pabbi ræskti sig og benti á drenginn. Þessi ungi herramaður segist heita… Hérna. Heita Jesú og hann er kominn hingað að sækja… Myrru, segirðu? Ha… já. Einhver reykelsi og gull.
Þrjá kassa sem hann sagði að vitringarnir þrír hafi látið ykkur systkinin fá fyrir… Hvað segirðu… nokkrum vetrum. Eru það kassarnir neðst í fataskápnum?
Ég játaði því.
Myrra og reykelsi? Hvað ætlarðu að gera við það, væni minn?
Drengurinn svaraði engu og ég horfði undrandi á hann. Jesú var fæddur fyrir næstum tvö þúsund árum! Hann gat ekki verið barn.
Og Jesúbarnið hafði fullorðnast og verði krossfest fyrir mörgum árum. Ég hafði lært um þetta allt í skólanum.
Ég hvíslaði til pabba að þetta gæti ekki staðið. Að þessi krakki…
Pabbi sussaði á móti og sagði: Það eru jólin…
Hann kinkaði kolli til litla drengsins og sagðist ætla að ná í kassana.
Við drengurinn stóðum þögulir og horfðumst í augu í anddyrinu. Hann leit í kringum sig en sagði ekki orð.
Þegar pabbi sneri aftur sagði hann mömmu og stelpurnar sofa. Þær þyrftu að sofa pestina úr sér. Pabbi hélt á þremur litlum tréboxum sem hann lagði á gólfið fyrir framan drenginn.
Hér er myrran, reykelsið og… Gullið, sagði pabbi. Þetta var inni í skáp, á bak við skóna. Gullið, það er… sjáum nú til: við vorum að byggja.
Drengurinn bugtaði sig og dró kassana til sín. Kassana færði hann nær sér á flísalögðu gólfinu í anddyrinu. Síðan lagði hann hendur saman og hneigði sig.
Eftir þetta tók drengurinn að tala. Rödd hans var óvenju djúp og hljómfögur. Eins og pípur í kirkjuorgeli með tónum sem maður kemur ekki alveg fyrir sig hvaðan koma:
Þið eruð í vandræðum með brúnuðu kartöflurnar. Ég hjálpa með þökkum.
Ekkert tíu ára barn talaði eins og þessi. Og ekkert barn var með þvílíka rödd, svona sterka, djúpa, svarta og langt niðri. Bassi úr efstu hillu.
En þetta var svo hljómfögur rödd, henni fylgdi einhver friður. Við pabbi töluðum um það löngu seinna að þessi hljómfegurð hefði fyllt húsið af hátíðleika.
Meira að segja mamma sagði daginn eftir að hún hefði vaknað um stundarsakir og fundist eins og hún hefði orðið heil. Samt bráði fljótt af henni og hún sofnaði fram á næsta dag.
Drengurinn fór úr bomsunum og gekk inn í húsið og inn í eldhús í norparanum. Hann var feitari en mér sýndist áður. Hann kveikti undir kartöflunum. Á meðan suðan kom upp gekk drengurinn um eldhúsið eins og heima hjá sér, náði í pönnu inni úr skáp, sykur úr búrinu og smjör úr ísskápnum.
Drengurinn lýsti öllu því sem hann gerði með sömu þungu og djúpu orgelröddinni og áður. Hann kveikti undir annarri hellu, teygði sig í hníf og sagði með djúpu röddinni sinni:
Það verður að gæta að því að hafa ekki of mikið smjör á pönnunni og búa til lög sem rennur ekki út um allt.
Hann þarf að vera þykkur…
Traustur.
Pabbi kveikti á kertum.
Síðan skar drengurinn flís af smjörinu og setti það á heita pönnuna. Hann tók lúku af sykri úr pokanum og lét hann drjúpa í sjóðandi smjörið. Hann teygði sig í sleif og hrærði öllu saman yfir hitanum. Þegar sykurbráðin var orðin að þykkum legi voru kartöflurnar klárar.
Drengurinn lagði pönnuna frá sér á eldavélina, hellti vatni af kartöflunum og bætti þeim við á pönnuna.
Drengurinn tók að humma…
Djúpur og hægur tónn sem seytlaði um húsið og minnti á Heims um ból…
Smám saman tóku kartöflurnar á sig gylltan lit. Drengurinn fór aftur í ísskápinn og kom rjóma sem hann hellti yfir gúmmelaðið.
Kunnuglegur angan fyllti húsið.
Við vorum komnir með jólamáltíð.
Þetta voru brúnaðar kartöflur.
Drengurinn tók pönnuna af hellunni, opnaði neðri skáp og tók út fat úr sparistellinu og hellti kartöflunum í það ásamt slurki af sykurleginum.
Garnir okkar pabba gauluðu.
Drengurinn setti pönnuna í uppþvottavélina, gekk síðan fram í anddyrið, fór í bomsurnar, opnaði dyrnar og hvarf á braut út í skafrenninginn og nóttina.
Klukkan var gengin í tíu þegar við pabbi settumst við uppdekkað borðstofuborðið, hvor með sinn diskinn. Pabbi sat við endann eins og alltaf og ég við aðra hvora hliðina. Fleiri vorum við ekki við borðstofuborðið.
Ég hafði varla bitið í nema eina sneið af hamborgarhrygg og hálfa brúnaða kartöflu þegar maginn lét vita af sér. Kaldur sviti spratt fram á ennið og mér varð bumbult.
Ég afsakaði mig og fór fram á bað.
Ég hafði líka fengið pestina.
Eftir að hafa skilað af mér þurfti ég að leggjast fyrir. Pabbi sagðist geta klárað þetta sjálfur.
Ég bauð góða nótt og fór inn í rúm.
Þannig fór um sjóferð þá. Daginn eftir vorum við öll lögst í rúmið og ekkert okkar fór því í árlegu jólaboðin sem báðir leggir af öfum og ömmum héldu alltaf á jóladag í Reykjavík. Þess í stað lágum við bakk fram eftir degi og snæddum það sem eftir stóð af jólamáltíðinni á öðrum í jólum.
Með jólamáltíðinni voru brúnaðar kartöflur, sem Jesúbarnið hafði matreitt handa okkur. Meira að segja mömmu fannst þetta alveg… eins og hún orðaði það: Himneskt.
En ég nota samt ekki alveg svona mikinn rjóma. Er eitthvað eftir af honum? Guð…
Hann…, sagði mamma, hún stóð upp, skoðaði inn í ísskápinn og hélt áfram: Ég… Af hverju notaði hann allan rjómann?
Þegar við höfðum öll borðað nægju okkar settumst við inn í stofu og tókum upp pakkana.
Þeir höfðu beðið okkar frá því á aðfangadag.
Þetta voru svo sannarlega eftirminnileg æskujól.
Jón Aðalsteinn Bergsveinsson