Think About Things á topplista Time

Daði og Gagnamagnið. Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

Think About Things með Daða og Gagnamagninu er á lista tímaritsins Time yfir tíu bestu lög ársins 2020.

Lagið sem er eftir Daða Frey Pétursson er sagt í senn angurvært og framúrstefnulegt. Think About Things var framlag Íslands til Eurovision og talið líklegt til afreka þar, en eftir að keppninni var aflýst í fyrsta skipti í 65 ára sögu hennar öðlaðist lagið eigið líf og breiddist hratt út á samfélagsmiðlum, ekki síst vegna dansins fræga sem margir dönsuðu í sóttkví.

Time segir að skilaboðin í laginu um skilyrðislausan kærleika nái langt út fyrir glitrandi svið Eurovisionkeppninnar.

Daði og Gagnamagnið eru ekki í slæmum félagsskap á lista Time en á listanum eru meðal annars lögin Little Nokia með Bree Runaway, Back Door með Stray Kids og WAP með Cardi B og Megan Thee Stallion.

Fyrri greinÞóra framlengir á Selfossi
Næsta greinSkáldastund í streymi frá Húsinu