
Fulltrúar Hveragerðisbæjar og Leikfélags Hveragerðis undirrituðu þjónustusamning milli bæjarins og leikfélagsins á æfingu hjá félaginu í síðustu viku.
Samningurinn er til þriggja ára og er honum ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda og leikfélagsins auk þess að tryggja öflugt menningarstarf í bænum. Stefnan er að sem flestum gefist kostur á þátttöku við uppsetningu leiksýninga og við annað starf félagsins.
Meginskyldur leikfélagsins samkvæmt samningnum felast í þátttöku í hátíðahöldum á vegum bæjarins og námskeiðahaldi fyrir börn eða ungmenni ár hvert, í aðdraganda bæjarhátíðarinnar Blómstrandi daga. Hveragerðisbær veitir félaginu árlegan rekstrarstyrk og greiðir einnig fasteignagjöld af húsnæði Leikfélagsins.
Pétur G. Markan, bæjarstjóri og Valdimar Ingi Guðmundsson, formaður LH, undirrituðu samninginn á æfingu á sýningu haustsins, Ávaxtakörfunni, sem verður frumsýnd laugardaginn 28. september.