Uppskeruhátíðin Haustgildi, menning er matarkista, fer fram 10.-11. september á Stokkseyri. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin.
Til að hita upp fyrir hátíðina mun sælkerakokkurinn og metsöluhöfundurinn Nanna Rögnvaldardóttir halda fyrirlestur á Brimrót sunnudaginn 4. september kl. 14:00.
„Það leggst mjög vel í okkur að halda hátíðina aftur. Þetta gekk nokkuð vel í fyrra og viðburðurinn mæltist vel fyrir. Það voru ákveðnir byrjendahnökrar á þessu svo við erum reynslunni ríkari í ár. Það er líka svo rík ástæða til að halda svona hátíð hér á Suðurland. Hér er mikil ræktun og mikil gróska í menningarlífi sem má veita meiri athygli,“ segir Pétur Már Guðmundsson, einn af aðstandendum hátíðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.
Nokkrar breytingar verða á hátíðinni í ár, meðal annars mun hátíðin nú fara fram mestmegnis í Hafnargötunni á Stokkseyri. „Þar verða smáhýsin og þaðan er stutt í mörg galleríin og þaðan verður líka auðveldara að leiðbeina gestum til hans Gussa í galleríið hans sem er í Strandgötu, beinni línu nokkurn veginn út frá Hafnargötunni. Þá verða líka tónleikar í Stokkseyrarkirkju frá 20-21 og smáhýsin verða opin frá 13-19 á laugardeginum og 13-17 á sunnudeginum.“
Meira úrval af grænmeti í ár
„Einn helsti böggurinn við hátíðina í fyrra var að það vantaði í raun grænmeti. En nú verða Sólheimar með og þau í Fljótshólum og meiri rófur frá Arabæ. Eitthvað um kartöflur líka,“ segir Pétur.
„Svo ætlum við að lengja örlítið í hátíðinni og kynna betur hugmyndina með því að halda minni viðburð næstkomandi sunnudag. Við erum sérlega heppin með fyrsta gest af því tilefni en Nanna Rögnvaldar ætlar að koma á Brimrót á sunnudaginn. Það verður sérlega skemmtilegt og hún ætlar að tala um íslenska matarmenningu og hvernig hún hefur orðið fyrir áhrifum erlendis frá. Þá er líka við hæfi að hafa vörur frá honum Roberto Tariello á boðstólnum. Hann er að búa til salami og pylsur í Þykkvabæ.“
Mikill kraftur í menningarlífinu á Stokkseyri
Á hátíðinni má finna alls konar vörur sem gleðja öll skilningarvitin. „Það eru enn einhver atriði sem eiga eftir að staðfesta formlega en þau sem ætla að taka þátt eru Sólheimar, Ölvisholt, Eyrarfiskur, Korngrís, Arabær, Fljótshólar, Tariello, Sápufólkið og svo verða öll galleríin á Stokkseyri opin en þau eru sjö og svo verður nýtt gallerí opnað við þetta tækifæri. Gallerí Ögn í forstofunni á Brimrót. Svo það er nóg að gerast. Sannarlega kraftur í menningarlífi á Stokkseyri. Með sjö, verðandi átta gallerí má spyrja hvað það eru mörg gallerí á íbúa. Svo eru tónleikar í Stokkseyrarkirkju og upplestur á Brimrót báða dagana,“ segir Pétur og bætir því við að hann hafi svo sannarlega orðið var við meiri áhuga fólks að versla beint af bónda.
„Við hlökkum mikið til hátíðarinnar. Þetta var gaman í fyrra og dagskráin í ár er afar safarík. Kannski er að bera í bakkafullann lækinn að fagna hausti, svona miðað við hvað sumarið hefur verið haustleg víða. En við gerum það samt og fögnum líka uppskerunni í víðri merkingu og njótum þess að koma saman hér á Stokkseyri,“ segir Pétur að lokum.