Þessa dagana eru Þorlákshafnarbúinn Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Hafnfirðingarnir Jökull Brynjarsson og Tómas Jónsson á óvenjulegu tónleikaferðalagi en þau halda 65 tónleika á öllum dvalar- og hjúkrunarheimilum á landinu.
Ása Berglind er fædd og uppalin í Þorlákshöfn og stundaði tónlistarnám í Tónlistarskóla Árnesinga þar sem hún lærði á fiðlu, trompet og pianó og áttaði sig á því ung að árum að tónlistin var eitthvað sem hún vildi leggja fyrir sig. Í fyrrahaust hóf Ása jazznám í Tónlistarskóla FÍH en auk þess hefur hún kennt við Tónlistarskóla Árnesinga og grunnskólann í Þorlákshöfn.
„Þessi hugmynd hafði verið að gerjast í þónokkurn tíma. Í janúar sögðu strákarnir mér frá henni og þá var ekki aftur snúið því ég elska að framkvæma brjálæðislegar hugmyndir,“ segir Ása í samtali við Sunnlenska og bætir við að tilgangur verkefnisins sé að sameinast, njóta og gleðjast. „Þannig sýnum við heldri borgurum landsins þakklæti og virðingu í verki fyrir uppbyggingu á því samfélagi sem við búum í.
Við höfum öll á ólíkan hátt starfað að tónlist með eldri borgurum og í þeirri vinnu hefur komið svo greinilega í ljós hversu mikið jákvæð áhrif söngur og tónlist hefur á líðan þessa hóps.“
Tónleikarnir standa yfir í 45 mínútur en á þeim flytur hópurinn þekktar íslenskar dægurperlur sem flestir þekkja og eiga því allir að geta sungið með. Lög eins og Sveitin milli sanda, Sestu hérna hjá mér og Heyr mína bæn. Ása og félagar voru á Suðurlandsundirlendinu fyrir skömmu þar sem þau komu fram á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði, Ljósheimum á Selfossi, Kumbravogi á Stokkseyri, Sólvöllum á Eyrarbakka og enduðu svo á 9unni í Þorlákshöfn.
Þeir sem vilja styrkja tríóið á tónleikaferð sinni geta lagt inn á reikning 0150-26-001084, kt. 300784-2409.