Laugardaginn 1. febrúar opnar Listasafn Árnesinga opnar á nýju ári með ljósmyndasýningu.
Þar má sjá verk eftir níu japanska ljósmyndara og ljósmyndahóp, sem allir eru virtir og vel kynntir í sínu heimalandi sem utanlands.
Sýningin er unnin að frumkvæði Japan Foundation sem fól einum fremsta ljósmyndagagnrýnanda landsins, Kotaro Iizawa, sýningarstjórnina. Viðfangsefnið var að endurspegla lífið og menninguna í TOHOKU í fortíð, nútíð og jafnvel framtíð, með augum ljósmyndunar, sem mótvægi við þær ljósmyndir sem fóru um heim allan í kjölfar hörmunganna vegna stóra jarðskjálftans 2011. Tohoku er jaðarsvæði á norðaustur hluta eyjarinnar Honsu sem er stærsta eyja Japans. Svæðið er búið einstökum og ríkulegum náttúruauðlindum þannig að landbúnaður, fiskveiðar og skógarhögg blómstrar þar, en þrátt fyrir náttúrugæði sín markast saga Tohoku einnig af erfiðri lífsbaráttu.
Sýningin er sett upp í Listasafni Árnesinga í samvinnu við Sendiráð Japans á Íslandi og sendiherrann herra Yasuhiko Kitagawa mun opna sýninguna. Á sýningartímanum verður einnig fengist við japanska menningu svo sem origami og kalligrafíu í fjölskyldusmiðjum safnsins.
Inga kveður og Kristín tekur við
Við opnun sýningarinnar mun Inga Jónsdóttir kveðja sem safnstjóri og kynna Kristínu Scheving sem tekur við frá og með 1. febrúar.
Aðgangur að safninu er ókeypis og sýningin mun standa til 22. mars. Einnig stendur sýningin Tilvist og Thoreau með verkum eftir Hildi Hákonardóttur, Elínu Gunnlaugsdóttur og Evu Bjarnadóttur áfram frá fyrra ári.