Karlakór Hreppamanna heldur tónleika í Félagsheimilinu á Flúðum í kvöld, þriðjudaginn 28. október kl. 20:30. Stjórnandi kórsins er Edit Molnár og píanóleikari Miklós Dalmay.
Tónleikarnir eru þríþættir. Í fyrsta lagi saknar kórinn vinar og vill með söng minnast bóndans, náttúru- og mannvinarins Sigurðar Steinþórssonar frá Hæli, sem fyllti tenórinn með sinni fallegu rödd undanfarinn áratug. Sigurður lést 24. september síðastliðinn.
Í öðru lagi er kórinn ákaflega stoltur af ungum og efnilegum félaga sem er að hasla sér völl meðal einsöngvara. Guðmundur Karl Eiríksson, baritón, mun syngja nokkur einsöngslög en hann hóf nám við Söngskólann í Reykjavík haustið 2011 og hafði þá áður sótt söngtíma hjá Stefáni Þorleifssyni. Hann stundar nú nám á framhaldsstigi við söngskólann og hefur frá upphafi verið nemandi Garðars Thórs Cortes. Hann hefur tekið þátt í nokkrum uppfærslum Nemendaóperu Söngskólans og sungið þar einsöngshlutverk, einnig söng hann hlutverk Barone greifa í uppfærslu á La Traviata í Hörpu núna í haust.
Að lokum mun kórinn syngja sjómannalög, og hnýta með því endahnút á dagskrána „Nú sigla svörtu skipin“. Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 2.000.