Menningarveisla Sólheima hefur staðið í allt sumar og hafa fjölmargir tónlistarmenn, fyrirlesarar og gestir lífgað upp á staðinn. Í dag stíga tveir ungir listamenn á stokk í Sólheimakirkju kl. 14.
Þau heita Nína Hjördís og Árni Freyr og hafa bæði stundað nám við Listaháskóla Íslands. Þau munu flytja klassísk verk eftir m.a. Chopin, Mozart og Liszt.
Að tónleikum loknum eða um kl. 15 verður fræðsluerindi í Sesseljuhúsi. Kristbjörg Traustadóttir, landslagsarkitekt, fræðir gesti um heilsugarða. Farið verður í gönguferð að nýjum matjurta- og heilsugarði Sólheima.
Fjölbreyttar sýningar eru á Sólheimum, í Íþróttaleikhúsinu er ljósmyndasýning af íbúum staðarins og í Ingustofu er samsýning vinnustofanna. Nýverið opnaði Orkugarðu Sólheima þar sem gestir geta fræðst um þá endurnýjanlegu orkugjafa sem eru í notkun hér á landi í smækkaðri mynd.
Sýningarnar eru opnar frá 9 – 18 virka daga og 12 – 18 um helgar og er ókeypis á alla viðburði.
Kaffihúsið Græna kannan og verslunin Vala eru opin alla daga frá 12 – 18.