Töfrahurðin frumsýnir á sunnudaginn tónleikhúsið „Nú get ég” í Kaldalóni í Hörpu. Verkið er tónleikhús fyrir alla fjölskylduna þar sem sagan frá því að Ísland varð fullvalda er skoðuð á gamansaman hátt.
Verkið, sem er fyrir söngkonu og djasssveit, er ritað af Karli Ágústi Úlfssyni í kringum nýja söngtexta eftir Þórarinn Eldjárn. Elín Gunnlaugsdóttir hefur samið létta og skemmtilega tónlist við textana sem byggir að hluta á íslenskri tónlist fullveldistímans.
Þjóðleg tónlist – en líka blús og rokk og rapp
Elín sagði í samtali við sunnlenska.is að það hafi verið mjög skemmtilegt að vinna að þessu verkefni en í því er meðal annars reynt að svara spurningunni hvað það þýðir að vera fullvalda þjóð.
„Verkefnið hófst með því að við Þórarinn vorum beðin um að semja ljóð og texta tengd fullveldisafmælinu, en við höfum starfað saman áður að söngleiknum Björt í sumarhúsi. Karl Ágúst kom svo seinna inn, en hann var fenginn til að tengja saman ljóðin sem fjalla um ákveðið tímabil í hundarð ára sögu fullveldisins,“ segir Elín og bætir við að tónlistin í verkinu sé nokkuð fjölbreytt.
„Sagan hefst í nútímanum en síðan er horft aftur til 1918 og sögunni er síðan fylgt til dagsins í dag. Tónlistin er allskonar, nokkuð þjóðleg í upphafi, en svo heyrum við líka blús, rokk og rapp. Öll tónlistin er samt órafmögnuð og flutt af lítilli djasssveit,“ segir Elín, en tónlistarstjóri er Selfyssingurinn Vignir Þór Stefánsson.
Ólafía Hrönn Jónsdóttir, syngur og leikur um leið og hún leiðir áheyrendur á sinn einstaka hátt í gegnum þau hundrað ár sem eru liðin frá því Ísland varð fullvalda. Leikstjóri verksins er Ingrid Jónsdóttir og myndir eru eftir Heiðu Rafnsdóttur
Aðeins ein sýning
Sýningin í Hörpu er kl. 13:00 á sunnudag en aðeins verður um þessa einu sýningu að ræða. Miðaverð er 1.500 krónur.