Nýlega hóf Tónakistan starfsemi sína en fyrirtækið sérhæfir sig í tónlistarefni fyrir eldri deildir leikskóla og yngstu bekki grunnskóla. Kennsluefni Tónakistunnar er fyrst og fremst hugsað til þess að styðja við starfsfólk og að einfalda tónlistariðkun með börnum og gera hana aðgengilega og skemmtilega.
„Hugmyndin að Tónakistunni kviknaði árið 2018 þegar ég vann á leikskólanum á Hvolsvelli. Ég var þar að vinna á deild með 3-4 ára börnum og fann að mig langaði til þess að reyna að nýta tónlist meira í leik og starfi,“ segir Sæbjörg Eva Hlynsdóttir, verkefnastjóri og höfundur kennsluefnis hjá Tónakistunni, í samtali við sunnlenska.is.
„Ég hef sjálf mikinn bakgrunn í tónlist en þrátt fyrir það fann ég fyrir mjög miklu óöryggi þegar kom að tónlistariðkun með börnunum. Mig skorti verkfæri og hugmyndir en einnig leiðsögn. Ég hélt að til þess að stunda tónlistariðkun með börnunum þyrfti ég að kunna á gítar og fullt af tónlistarleikjum. Ég hugsaði með mér að ef að mér líður svona, líður öðrum svona líka?“
Lokaverkefni í LHÍ
Hugmynd Sæbjargar komst á almennilegt skrið þegar hún var að klára námið sitt í Listaháskóla Íslands. „Nokkrum árum síðar er ég að ljúka BA námi í skapandi tónlistarmiðlun við Listaháskóla Íslands og langaði til þess að kanna betur tónlistariðkun í leikskólum og upplifun starfsfólks á að leiða tónlistarstundir. Ég skrifaði því rannsóknarritgerð um það og tók viðtöl við leikskólastjóra á fjórum mismunandi leikskólum.“
„Niðurstöðurnar voru þær að almennt er töluvert óöryggi meðal starfsfólks þegar kemur að tónlist og þá sérstaklega þar sem að enginn var til þess að leiðbeina eða gefa hugmyndir. Út frá því kviknaði hugmyndin að Tónakistunni, sem varð síðan lokaverkefnið mitt við listaháskólann árið 2022. Síðan þá hefur Tónakistan verið í þróun og hef ég fengið góða aðstoð frá nokkrum leikskólum.“

Margskonar jákvæð áhrif tónlistar á börn
Sæbjörg Eva segir að Tónakistan sé í raun verkfæri fyrir fólk sem vinnur með börnum til þess að geta verið með einhverskonar tónlistariðkun, án þess að vera með bakgrunn í tónlist.
„Mér finnst þetta svo mikilvægt vegna þess að tónlist hefur alveg ótrúleg áhrif á okkur mennina og þá sérstaklega börn. Tónlistariðkun með börnum hefur margs konar jákvæð áhrif, til dæmis styrkir börn í félagslegri tengslamyndun, tilfinningastjórn og styður við mál-, og hreyfiþroska. Tónlist er nefnilega ein af fáum upplifunum sem virkjar allan heilann og myndar þannig taugabrautir sem endast okkur út lífið! Þess vegna langaði mig að gefa sem flestum börnum tækifæri til þess að upplifa tónlist á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt, með því að styðja við fólkið sem er með börnunum okkar í leik- og grunnskólunum.“

Í stöðugri þróun
Upphaflega var Sæbjörg Eva ein með Tónakistuna en nýlega bættust tveir í hópinn með henni. „Ég er sjálf höfundur kennsluefnis Tónakistunnar en síðasta sumar fékk ég til liðs við mig Kristbjörgu Ástu Viðarsdóttur og Dag Snæ Elísson,“ segir Sæbjörg Eva en þess má geta að Dagur Snær er frá Selfossi.
„Eftir að þau stukku á vagninn hefur boltinn virkilega farið að rúlla og höfum við nú stofnað fyrirtæki í kringum Tónakistuna og erum sífellt að vinna að því að gera hana betri. Einnig erum við að vinna að nýjum spennandi verkefnum sem tengjast því að virkja sem flesta í gegnum tónlist.“

Engin þörf á tónlistarlegum bakgrunni
Sæbjörg Eva er ánægð með þær góðu viðtökurnar sem Tónakistan hefur fengið. „Við höfum nú þegar selt þó nokkrar Tónakistur inn á leikskóla víða um landið og það er almennt mikill áhugi. Við höfum einnig verið dugleg að fara á starfsdaga hjá skólum að kynna kennsluefnið og mikilvægi tónlistar og það hefur vakið mikla lukku.“
„Mín tilfinning er sú að það eru allir af vilja gerðir þegar kemur að því að efla tónlistarstarf í skólakerfinu okkar en að oft vanti bara örlítinn stuðning og ekki síst hugmyndir. Þess vegna er Tónakistan hönnuð með það í huga að hver sem er geti nýtt sér kennsluefnið og að það þarfnist ekki mikils undirbúnings. Tónlist á fyrst og fremst að vera skemmtileg og skapandi.“
„Tónakistan er kennsluefni sem kemur á bæði rafrænu og útprentuðu formi. Með kennsluefninu fylgir svo kista sem er full af hljóðfærum, sérstaklega ætluð börnum, og hjálpargögn sem styðja við verkefni og leiki. Helsti kostur kennsluefnisins er að það er engin þörf á að vera með bakgrunn eða þekkingu á tónlist til þess að geta notað það!“ segir Sæbjörg Eva að lokum.
