Tónlistarhátíðin Englar og menn í Strandarkirkju fór vel af stað um síðustu helgi með tónleikum fyrir fullri kirkju.
Næst á dagskrá hátíðarinnar er samvinnuverkefni við kirkjuna en á sunnudag kl. 14 verður tónlistarmessa þar sem sr. Ninna Sif Svavarsdóttir þjónar.
„Englar hæstir“ er yfirskrift messunnar en tónlistarflutning annast Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona, Matthías Nardeau óbóleikari og við orgelið verður Hilmar Örn Agnarsson organisti. Þau flytja m.a. írsk þjóðlög og íslenska sálmatónlist ásamt tónlist eftir G. Fauré, W. Gomez, A Pärt, J.S. Bach og T. Albinoni.
Hátíðin Englar og menn stendur yfir til 24. júlí með tónleikum á sunnudögum kl. 14 en á næstu tónleikum, þann 3. júlí, koma fram söngkonurnar Bryndís Guðjónsdóttir og Vera Hjördís Matsdóttir og með þeim leikur Ingunn Hildur Hauksdóttir á píanó og orgel.
Hátíðin er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Tónlistarsjóði.