„Menntaverðlaun Suðurlands 2022 hlýtur Tónlistarskóli Árnesinga fyrir að mennta nemendur sína á starfstöðvum víða í Árnessýslu og efla þá í að koma fram á hinum ýmsu viðburðum skólans. Verðlaunin eru einnig veitt fyrir kynningu kennara skólans á fjölbreyttum hljóðfærum fyrir nemendur grunnskóla í Árnessýslu á hverju vori. Með starfi sínu leggur Tónlistarskóli Árnesinga grunn að öflugu menningarstarfi í Árnessýslu allri.“
Þetta stendur ritað á viðurkenningarskjali sem stjórnendur tónlistarskólans tóku við þegar skólanum hlotnuðust Menntaverðlaun Suðurlands fyrir árið 2022. Forseti Íslands afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Suðurlands á dögunum
Níu tilnefningar bárust um Menntaverðlaun Suðurlands og var það samdóma álit sérstakrar nefndar í kringum verðlaunin að þau skyldu fara til Tónlistarskóla Árnesinga.
Tónlistarskólinn sinnir tónlistarmenntun um 550 nemenda á 14 kennslustöðum í Árnessýslu en að skólanum standa öll átta sveitarfélög sýslunnar. Skólinn leggur þannig grunninn að, og stendur fyrir öflugu menningarstarfi á svæðinu og leggur janframt mikla áherslu á að tengjast samfélaginu. Nemendur og kennarar skólans eru víða sýnilegir og má meðal annars nefna að um helmingur hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands eru kennarar og nemendur Tónlistarskóla Árnesinga.
Auk Tónlistarskóla Árnesinga voru tilnefnd til verðlaunanna Elsa Jóna Stefánsdóttir í Þorlákshöfn, Þorbjörg Lilja Jónsdóttir í Hveragerði, Heilrækt þróunarverkefni skólaíþrótta í Grunnskólanum í Hveragerði, Fjallmennskunámið í Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu, Víkurskóli fyrir Víkurfjöruverkefnið, Myndlistarkennarar við Fjölbrautarskóla Suðurlands, Valberg Halldórsson kvikmyndaskólanemi og Flóaskóli.