Sunnlenska hljómsveitin Kiriyama Family á eitt af vinsælustu lögum landsins þessa dagana, Disaster, af langþráðri þriðju breiðskífu hljómsveitarinnar.
Lagið tróndi á toppi Vinsældarlista Rásar 2 fyrir viku síðan en margir hafa beðið óþreyjufullir eftir nýju efni frá hljómsveitinni. Eftir hátt í fimm ára pásu dugði ekki ein plata, nei, í apríl síðastliðnum sendi sveitin frá sér tvær plötur, breiðskífuna …LP3 og hinsvegar svokallaða bootleg plötu sem ber nafnið Earlies, D’s and Casualties.
Í byrjun þessa árs var nóg komið
„…LP3 er plata sem við höfum lengið setið á og hefur í raun verið tilbúin síðan 2020. En það má segja að bæði COVID og barneignir okkar hljómsveitameðlima hafi tafið vinnsluna. Í byrjun þessa árs var nóg komið, við gátum setið lengur á þessu og ákváðum að klára þetta svo við gætum loks gefið efnið út,“ segir Guðmundur Geir Jónsson, einn meðlima Kiriyama Family í samtali við sunnlenska.is.
„Earlies, D’s and Casualties er hugmynd sem við höfum haft lengi bakvið eyrað að framkvæma. Við höfum í gegnum tíðina samið ótal mörg lög og demo sem endilega hafa ekki ratað á breiðskífurnar okkar. Við vorum í eitthvað svo miklu stuði þegar við vorum að leggja lokahönd á …LP3 að við ákváðum að slá loks til. Við dustuðum rykið af gömlum flökkurum og tókum saman þau demó sem okkur þótti hvað mest vænt um og skelltum saman í þessa plötu,“ segir Guðmundur.
Fæddist á æfingu í Hveragerði
Lögin Pleasant Ship og Everytime You Go hafa verið í spilun undanfarin misseri en það var Disaster sem skaut sveitinni aftur á topp vinsældarlistans.
„Lagið varð til á æfingu í Hveragerði. Hljómar voru slegnir og groovið slípað í samspili. Kalli skaut inn laglínum sem uppskar jákvæð viðbrög frá hinum hljómsveitarmeðlimum. Eins og með mörg önnur lög þá kom lagið og laglína fyrst og textinn svo síðar. Tilfinningin var hinsvegar slegin með texta viðlagsins,“ segir Guðmundur en viðfangsefni textans er nokkurskonar sjálfskoðun þar sem tekist er á við kvíða og það hvernig manns versti gagnrýnandi er oft maður sjálfur.
…LP3 og Earlies, D’s and Casualties eru komnar á allar helstu streymisveitur en þess má geta að á bootleg plötunni eru hvorki meira né minna en 35 demó lög sem hafa ekki ratað inn á plötur hjá sveitinni í gegnum tíðina.