Tvær sýningar verða opnaðar í Listasafni Árnesinga kl. 15 í dag; sýning Ragnheiðar Jónsdóttur Kosmos Kaos og sýning Jakobs Veigars Sigurðssonar, Megi hönd þín vera heil.
Ragnheiður varð 90 ára í júlí síðastliðnu og er sýningin í sölum 1-3 í listasafninu opnuð í tilefni af því. Sýningarstjóri er Daría Sól.
Ragnheiður hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968 og hefur frá þeim tíma unnið óslitið að myndlist til dagsins í dag. Þráðurinn í verkum Ragnheiðar er sjálfblekkingin – blindnin – græðgin – einsemdin – andvaraleysið – umhverfið – heimurinn okkar. Ragnheiður segir að myndlist sé í hennar huga samtal listamannsins og áhorfandans. Að tilganginum sé náð þegar að henni tekst að rumska við áhorfandanum.
Ragnheiður Jónsdóttir er Árnesingur í báðar ættir. Afi hennar og amma í móðurætt voru Ingvar Hannesson, bóndi að Skipum í Stokkseyrarhreppi og fyrri eiginkona hans, Vilborgar Jónsdóttur frá Sandlækjarkoti Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ingvar og Ásgrímur Jónsson listmálari voru systrasynir. Mæður þeirra voru systurnar Sigurbjörg og Guðlaug frá Vantsholti í Flóa. Faðir Ragnheiðar var Benedikt sonur Guðjóns Jónssonar bónda frá Seli og eiginkonu hans Kristjönu Jónsdóttur frá Grímsfjósum Stokkseyri. Þau bjuggu að Leiðólfsstöðum Stokkseyrarhreppi.
Sýning Ragnheiðar er styrkt af Safnaráði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.
Megi hönd þín vera heil
Hvergerðingurinn Jakob Veigar Sigurðsson er búsettur í Vín en sýnir nú verk sín í heimabænum. Sýningin snýst um samband hans við Íran en hann hefur dvalið þar ótal sinnum og hefur það haft mikil áhrif á sköpunarkraft hans. Sýningin er unnin í samstarfi við Shanay Artemis Hubmann og fleiri aðila búsetta í Íran.
saLeh roZati og Pourea Alimirzae munu flytja tónlistargjörning á meðan opnun stendur í dag, frá klukkan 15 til 17 í sal 4.
Sýning Jakobs Veigars er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands, Myndstef og Myndlistarsjóði.