Bókaútgáfan Sæmundur býður til útgáfuhófs næstkomandi föstudag, þann 29. október kl. 17, í Bókakaffinu Ármúla 42 í Reykjavík.
Þar verður fagnað útgáfu tveggja nýrra bóka. Bækurnar eru sjálfsævisagan Guðfaðir geðveikinnar á Akureyri eftir Brynjólf Ingvarsson geðlækni og ættarsögubókin Bréfin hennar Viktoríu eftir Ingu Kristjánsdóttur.
Útgáfuhófið verður haldið í Bókakaffinu Ármúla og eru allir velkomnir. Boðið verður upp á rautt, hvítt og kruðerí.
Í byrjun síðustu aldar var stór og glaðvær systkinahópur að vaxa úr grasi á Gýgjarhóli í Biskupstungum. Það var til þess tekið hvað Gýgjarhólssystkinin voru mannvænleg, enda létu mörg þeirra snemma til sín taka þar í sveitinni í félags- og framfaramálum. Örlög þeirra urðu þó misjöfn, heilsuleysi og sjúkdómar hjuggu snemma skörð í þennan efnilega hóp og tvö systkinanna fluttust burt úr sveitinni, annað í fjarlægar heimsálfu.
Bréfin hennar Viktoríu eftir Ingu Kristjánsdóttur rekja sögu þessara systkina allt frá því að fjölskyldan flutti búferlum að Gýgjarhóli frá Þjórsárholti í Gnúpverjahreppi árið 1898. Tilviljun réði því að sendibréf sem fóru á milli systkinanna og vina þeirra hafa varðveist og er sagan rakin í gegnum þessi bréf, þótt einnig sé stuðst við fleiri heimildir. Auk þess að fylgja fjölskyldunni í gegnum gleði og sorgir, er bókin áhugaverð heimild um sveitarbrag og
áhugamál ungs fólks í uppsveitum Suðurlands fyrir um hundrað árum.
Höfundurinn, Inga Kristjánsdóttir, er dóttir eins af systkinunum frá Gýgjarhóli og ólst þar upp frá unga aldri.
Í bókinni Guðfaðir geðveikinnar á Akureyri greinir Brynjólfur Ingvarsson læknir frá ættum sínum og uppvexti, námsárum og fjölskyldu. Hann segir frá átta langalangöfum sínum í Eyjafirði og Skagafirði og afkomendum þeirra en endar á eigin afkomendum svo fjölskyldusagan teygir sig yfir 230 ár. Annar meginþáttur bókarinnar er yfirlit yfir sögu geðheilbrigðisþjónustu á Akyreyri og nágrenni en Brynjólfur var fyrsti geðlæknir Fjórðungssjúkrahússins í fullu starfi.