Tvö lög til viðbótar frá Moskvít

Hljómsveitin Moskvít.

Sunnlenska hljómsveitin Moskvít heldur áfram að senda frá sér lög af væntanlegri breiðskífu, sem nefnist Human Error.

Að undanförnu hefur sveitin sent frá sér lag í hverri viku. Í dag kom út lagið Hey Love og í síðustu viku fór lagið Tarantino í loftið.

Hey Love er rokklag af bestu gerð með brjálaðri bassalínu þar sem gítarriff og söngur mynda eldfima blöndu. Textinn fjallar um mann sem ráðskast með fólk til að ná sínu fram og stjórna umræðunni í fjölmiðlum með blekkingaleik.

Tarantino er lag númer eitt á plötunni Human Error. Það fjallar um að sleppa alveg stjórninni og fljóta bara með. Að fylgja því sem fyrir manni er haft þó maður viti betur því að það er erfitt að takast á við vandamál. Aðal persónan er að glíma við hvatir sínar. Hann ferðast ört á milli bæjarfélaga og drekkir sér í víni. Hans vandamál er að hann langar ekki að langa til að myrða fólk. En í staðinn fyrir að takast á við vandan þá flýr hann og hvötin tekur yfirhöndina.

Eins og sunnlenska.is hefur áður greint frá er Human Error þemaplata sem snertir á ýmsu, til dæmis siðfræði, menningu og heimspeki, sem er miðlað í gegnum raðmorðingja.

Hljómsveitin Moskvít er sunnlensk í húð og hár en hana skipa þeir Sigurjón Óli Arndal Erlingsson söngvari og bassaleikari, Alexander Örn Ingason á trommur, Jón Aron Lundberg á píanó og Valgarður Uni Arnarsson á gítar.

Hér fyrir neðan má finna nýjustu lögin frá Moskvít.

Fyrri greinTveir í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinBjörgunarsveitir í óveðursútköllum