Tvö verkefni fengu úthlutun þegar menningarstyrkur Rangárþings ytra var afhentur formlega á Hellu á 17. júní. Þetta var fyrri úthlutun af tveimur árið 2024. Alls bárust sex umsóknir í sjóðinn að upphæð tæplega 1,2 milljónir króna.
Raddir úr Rangárþingi hlutu 200 þúsund króna styrk vegna rokkveislu sem blásið verður til í íþróttahúsinu á Hellu þann 15. ágúst næstkomandi. Tónleikar á vegum Radda úr Rangárþingi hafa nú þegar sannað gildi sitt en þeir hafa verið afar vel sóttir, hlotið mikla umfjöllun víða í samfélaginu og verið lyftistöng fyrir tónlistarfólk á svæðinu.
Þá hlaut leikkonan Birta Sólveig Söring Þórisdóttir frá Selalæk 50 þúsund króna styrk vegna einleiksins „Kríukroppur“ sem settur verður upp á Hellu í ágúst næstkomandi. Verkefnið er spennandi menningarverkefni sem er líklegt til að auðga menningarlíf svæðisins. Sýningin hefur einnig sterka tengingu við svæðið og íbúa þess.