Hr. Eydís heldur áfram að senda frá sér ´80s ábreiðurnar og að þessu sinni er það Eurythmics syrpa. Reyndar bara tveggja laga syrpa, en þetta er syrpan sem hljómsveitin hefur tekið í tónleikapartýjunum Alvöru ´80s partý.
Syrpan samanstendur af tveimur lögum, Here Comes the Rain Again og Sweet Dreams (Are Made of This). Þau Annie Lennox og Dave Stewart í Eurythmics urðu feykilega vinsæl á níunda áratugnum og hvert lagið á fætur öðru varð vinsælt.
Sweet Dreams (Are Made of This) var hins vegar þeirra fyrsta lag sem sló almennilega í gegn, en það var árið 1983. Það einkennilega er að lagið var fjórða smáskífan af plötunni og hin fyrri eru nokkurn veginn gleymd, a.m.k. ef miðað er við Sweet Dreams (Are Made of This) sem varð algjör megahittari. Here Comes the Rain Again kom svo út ári síðar á plötunni Touch og varð líka mjög vinsælt.
„Ég fór á tónleika með Eurythmics sumarið 1989 í franska strandbænum Juan-les-Pins og það var alveg magnað, litlir útitónleikar og Eurythmics tók öll sín stærstu lög. Ég mun aldrei gleyma þessum tónleikum enda hafði ég hlustað á tvíeykið alveg síðan ég heyrði lagið Love is a Stranger fyrst á einhverri íslensku safnplötunni snemma á níunda áratugnum svo þetta var upplifun sem seint gleymist,“ segir Örlygur söngvari og gítarleikari Hr. Eydís með nokkurri fortíðarþrá.