Guðný Sif Jóhannsdóttir, eigandi og markaðsstjóri Fröken Selfoss og Groovís, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvernig var árið 2024 hjá þér? Árið byrjaði frekar krefjandi. Fröken Selfoss var ennþá mjög nýr veitingastaður og við vorum að reyna að finna okkur í þessu nýja plássi. Við byrjuðum sem tapas staður, en reksturinn var of þungur og gekk ekki vel. Þá tókum við stóra U-beygju og breyttum áherslum yfir í íslenskt hráefni úr nærsveitum Selfoss. Þessi breyting hefur reynst okkur vel og í sumar náðum við þeim áfanga að vera í fyrsta sæti á TripAdvisor, eða númer eitt af 147 veitingastöðum á Suðurlandi og númer eitt af 40 veitingastöðum á Selfossi. Þetta var risastórt fyrir okkur og staðfesting á að við vorum á réttri braut. Seinni hluti ársins var töluvert ánægjulegri. Við náðum að skapa smá svigrúm til að sinna okkur sjálfum og fjölskyldunni og leyfðum okkur að ferðast á milli verkefna. Það var mjög kærkomið.
Hvað stóð upp úr á árinu? Ferðalögin í sumar og haust standa klárlega upp úr. Við fjölskyldan fórum saman til Ítalíu, sem hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Svo fórum við til Spánar með tengdafjölskyldunni og að lokum fórum við hjónin tvö saman til London. Það var ótrúlega gott og í raun nauðsynlegt að geta kúplað okkur frá vinnu og hlúð að okkur sjálfum og okkar nánustu. Eftir þrjú viðburðarík og krefjandi ár var þetta einmitt það sem við þurftum.
Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Haha, ég á tvær litlar prinsessur, og það sést á listanum! Í fyrsta sæti er Barbie lagið, næst á eftir kemur Þetta er nóg úr Frozen og svo Prumpulagið.
Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Það er algjör skylda að horfa á Áramótaskaupið og borða góðan mat. Svo sprengjum við að minnsta kosti eina áramótasprengju, en maðurinn minn er þó miklu sprengjuóðari en ég og vill kaupa töluvert meira magn, en það nægir mér að horfa á úr fjarska það sem aðrir sprengja upp.
Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Við vorum heima um áramótin og fengum vinafólk til okkar í mat. Svo eftir Skaupið þá fórum við að skála með fólkinu okkar á Fröken Selfoss en við vorum með opið á barnum fyrir starfsfólkið okkar og vini þeirra og sprengdum nokkra flugelda um miðnætti.
Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Við vorum með lambahrygg í matinn en mér finnst lambið alltaf langbest og með því voru brúnaðar kartöflur, rauðkál, baunir og eplasalat.
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Haha, nei, ég hef lært af reynslunni að áramótaheit ganga ekki upp hjá mér.
Hvernig leggst nýja árið í þig? Ég er mjög spennt fyrir nýju ári. Ég held að 2025 verði frábært ár, það hljómar einhvern veginn svo vel. Ég er bjartsýn á það sem framundan er og full tilhlökkunar fyrir komandi ári.