Uglur, fyrsta kvikmynd Teits Magnússonar í fullri lengd, verður sýnd á Reykjavik International Film Festival 2021 í næstu viku.
Uglur var tekin upp sumar 2020 í Alviðru í Ölfusi. Eyrbekkingurinn Teitur Magnússon skrifaði handritið, leikstýrði og framleiddi myndina en fjöldi Sunnlendinga kemur að myndinni. Rakel Ýr Stefánsdóttir leikur eitt aðalhlutverkið og Hafþór Unnarsson leikur einnig stórt hlutverk í myndinni. Þá sá Jósep Helgason um allar Foley upptökur og vinnslu, María Markó sá um leikmyndahönnun og Bertha Ágústa Einarsdóttir sá um ljósmyndir á tökustað.
Myndin fjallar um Pál, sem er ungur ekkill sem hefur undanfarin ár lokað sig frá samfélaginu. Hans einangraða líf tekur breytingum þegar Elísabet, ung kona, fær húsaskjól hjá honum eftir að hafa flúið úr ofbeldisaðstæðum. Elísabet heillast af lífsstílnum sem Páll lifir og fer hægt og rólega að tileinka sér hann. Hins vegar kemur kærasti Elísabetar ítrekað og reynir að sannfæra hana um að koma aftur heim. Páll neyðist þá til að horfast í augu við sína eigin fortíð til að koma upp á milli þeirra.
Uglur verður frumsýnd á RIFF 2021 í flokknum Ísland Í Sjónarrönd (Icelandic Panorama) og verða sýningarnar 4. og 6. október. Almennar sýningar á myndinni verða tilkynntar síðar.