Myndlistarmaðurinn Úlfar Örn er listamaður nóvembermánaðar í Gallery Listaseli á Selfossi.
Úlfar er vel kunnur fyrir málverk sín af íslenska hestinum. Hann hefur áhugaverða nálgun á myndefnið og þykir takast vel upp við að ná kyrrð og ró hestsins í gegn um tjáningarrík augun. Hann hefur einnig unnið fígúratíf verk bæði teikningar og málverk en að þessu sinni sýnir hann olíumálverk af íslenska hestinum.
Galleríið sem nýtur mikilla vinsælda er í Brúarstræti 1 í nýja miðbænum á Selfossi og listamaðurinn verður við opnun, föstudaginn 5. nóvember á milli klukkan 16 og 18.
Úlfar Örn nam grafíska hönnun og myndskreytingar í MHÍ og í Konstfack í Stokkhólmi. Hann starfaði við hönnun og auglýsingagerð í mörg ár ásamt því að iðka list sína. En undanfarin ár hefur hann alfarið helgað sig myndlistinni.
Sumarið 2020 fluttu Úlfar og Anna kona hans vinnustofu og gallerí sem þau ráku á Vesturgötu í Reykjavík austur í Bláskógabyggð. Þau búa í Laugagerði í Laugarási og þangað eru allir velkomnir eftir samkomulagi.