Í tengslum við sýninguna Að þekkjast þekkinguna í Listasafni Árnesinga, fer fram annar liður umræðudagskrár í safninu í dag kl. 15.
Að þessu sinni flytja erindi mann- og safnafræðingurinn Sigurjón Baldur Hafsteinsson og listfræðingurinn Margrét Elísabet Ólafsdóttir, auk þess sem listamennirnir Olga Bergmann og Sara Björnsdóttir taka þátt í umræðum.
Rætt verður um stofnanavæðingu þekkingar í gegnum söfn; vald, sögu og upphaf safna eins og við þekkjum þau í dag með hliðsjón af þekkingarsöfnun heimsins. Einnig verður rætt um þekkingarmaskínuna sem listasagan drífur áfram, sem og hlutverk listfræðinga og sýningarstjóra í að ramma inn þekkingu um listir. Jafnframt verður sjónum beint að stöðu listamannsins sem þekkingarskapandi afli í samfélagi og vöngum velt yfir stöðu þeirra í þekkingarkerfi nútímans.
Sýningin stendur til 11. júlí og er styrkt af Menningarráði Suðurlands. Listasafn Árnesinga í Hveragerði er opið alla daga kl. 12-18. Þar er notaleg kaffistofa, barnahorn og leskró þar sem hægt er að líta í ýmis rit um myndlist. Aðgangur er ókeypis.