Undirbúningur Safnahelgar hafinn

Dagana 4. – 7. nóvember verður í þriðja skipti efnt til Safnahelgar á Suðurlandi í samvinnu við Matarkistu Suðurlands.

Safnahelgin er sem fyrr haldin í samvinnu við Matarkistu Suðurlands og með styrk frá Menningarráði Suðurlands. Auk stuðnings frá Menningarráði annast menningarfulltrúi Suðurlands framkvæmdastjórn helgarinnar líkt og á síðasta ári og er það mikill stuðningur fyrir verkefnið og alla þátttakendur.

Á fyrsta undirbúningsfundi var ákveðið að hvetja sérstaklega lista- og handverksfólk til að taka þátt í þessu skemmtilega samstarfsverkefni. En auk framangreindra hvetur undirbúningsnefndin söfn, setur, veitingastaði, menningarsali, handverkshús og alla þá sem vilja efna til menningar- eða matarveislu til þátttöku, en yfirskrift helgarinnar verður sem fyrr „Matur og menning úr héraði“. Hver aðili undirbýr eigin dagskrá en nefndin ásamt menningarfulltrúa, sér um að kynna safnahelgina í heild sinni.

Tilkynning um þátttöku og upplýsingar um dagskrá berist til menningarfulltrúa Suðurlands á netfangið dorothee@sudurland.is helst um mánaðarmótin en í allra síðasta lagi 11. október.

Fyrri greinBjörgvini ekki stefnt
Næsta greinSafnað fyrir færanlegum svifryksmæli