Myndlistarverkið Undirliggjandi minni verður sýnt í félagsheimilinu Félagslundi í Flóahreppi frá 5. til 20. október. Sýningaropnun er 5. október kl. 15:00 og eru allir velkomnir.
Undirliggjandi minni er leikið kvikmyndaverk sem byggt er á æskuminningum þriggja einstaklinga sem ólust upp í Flóahreppi, áður Gaulverjabæjarhreppi. Bernskuminningar liggja oft á mörkum þess ómeðvitaða, það er ekki alltaf ljóst hvað er frásögn annarra og hvað er eigin upplifun.
Þátttakendur í verkinu eru Guðjón Helgi Ólafsson frá Ásgarði, Valdimar Elí Viðarsson, Anný Ingimarsdóttir frá Vorsabæjarhjáleigu, Ottó Ingi Annýjarson, Margrét Jónsdóttir frá Syðri-Velli, Kristjana Ársól Stefánsdóttir og Ásgerður Saga Stefánsdóttir.
Minningar tengjast á áhugaverðan hátt
Minningar þátttakendanna tengjast á áhugaverðan hátt í fjósum tímans um og eftir 1970, þar sem miklar breytingar áttu sér stað í búskaparháttum. Upplifanir af bústörfum og heimilisfólki, kúm, fjósaköttum og músum vega þungt í huga barnsins. Þannig er fjósið ákveðin þungamiðja verksins og var að hluta kvikmyndað í fjósinu í Gaulverjabæ. Svið kvikmyndarinnar er jafnframt utandyra, á stöðum sem tengjast eigin minningum þátttakenda, á heimabæjum og oftast við aðstæður þar sem hús, munir og fólk er horfið af vettvangi þess viðfangsefnis sem fjallað er um.
Einstaklingarnir þrír, sem eru uppspretta verksins, leika einnig í kvikmyndinni ásamt börnum sem þeim tengjast, þeirra eigin börn eða þeim nákomin. Börnin eru miðlar inn í bernsku fullorðna fólksins í verkinu. Þau framkalla hugmyndir um framtíðina með viðveru sinni, ásamt því að vera útvíkkun þeirra sjálfs, eigin minninga þess fullorðna.
Opið verður daglega frá kl. 15.00 til 19:00 og eftir samkomulagi, sími: 661-0146.