Söngvaskáldin UniJon ætla að töfra fram notalega stemmningu með ljúfsárri tónlist á Bókamarkaðinum í Hveragerði á laugardaginn, 25. júlí klukkan 14. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Má því búast við rólegum tónum á þjóðlegum og rómantískum nótum í bland við gamlar og nýjar bækur.
Dúettinn UniJon samanstendur af þeim hjónum Unni Arndísardóttur og Jóni Tryggva Unnarssyni. Þeirra samstarf hófst árið 2009 og síðan þá hafa þau gefið út sólóplötur og dúettplötu ásamt því að hafa ferðast á þessum árum til Bandaríkjanna og Evrópu með tónlistina í farteskinu.
Bókamarkaðurinn að Austurmörk í Hveragerði er opinn allar helgar frá föstudegi til sunnudags 12-18. Þar er að finna þúsundir titla á lágu verði, bæði notaðar bækur og nýjar. Öll helstu bókaforlög landsins eru þátttakendur í markaðinum en það eru Bókabæirnir austanfjalls sem hafa veg og vanda að framkvæmdinni.