Lesið verður upp úr fjórum nýjum bókum í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8 í Reykjavík miðvikudagskvöldið 4. október. Það er Bókaútgáfan Sæmundur sem stendur fyrir viðburðinum sem hefst klukkan 20:00 og stendur í liðlega klukkustund.
Hér kynna ljóðskáldin Sigríður Helga Sverrisdóttir og Knud Ødegård nýjar ljóðabækur sínar, Haustið í greinum trjánna og Þunna torfan sem ég stend á. Þýðandi ljóða Knuds Ødegård er Hjörtur Pálsson. Þá les Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur úr nýrri skáldsögu sinni Tímagarðinum og síðast en ekki síst Valgarður Egilsson úr smásagna og ærslabókinni Ærsl.
Að loknum lestri verða hinar nýju bækur til sölu á tilboðsverði og höfundar árita.
Hið sögufræga Gunnarshús er skammt frá Áskirkju í Reykjavík. Rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson lét reisa húsið 1952 og bjó þar seinni hluta ævinnar. Innréttingar eru upprunalegar en húsið er eign Rithöfundasambandsins sem hefur þar skrifstofur og félagsaðstöðu. Gunnarshús var teiknað af Hannesi Kr. Davíðssyni og þykir í senn fagurt og merkur áfangi í byggingarsögu þjóðarinnar þar sem brotið var uppá framúrstefnulegum nýmælum.
Léttar veitingar í boði og allir velkomnir.