Uppselt er á allar sýningar Leikfélags Hveragerðis á Ávaxtakörfunni fram að jólum. Síðasta sýning fyrir jól er sunnudaginn 8. desember og þá fá leikarar og baksviðsfólk kærkomið jólafrí.
„Við verðum þá búin að sýna 22 sýningar fyrir fullu húsi síðan í september,“ segir Ingi Guðmundsson formaður Leikfélags Hveragerðis.
„Það er alls ekki sjálfgefið að sýningar áhugaleikfélaga gangi svona vel og erum við virkilega glöð með viðtökurnar. Með þessum viðtökum erum við að fá staðfestingu á því að sú mikla vinna og metnaður sem var lagður í undirbúninginn sé að skila sér til áhorfenda en útkoman er virkilega góð og vönduð sýning, þó ég segi sjálfur frá.“
Ingi segir jafnframt að það spili ekki síður inní hvað boðskapurinn í sögunni er mikilvægur og eigi erindi sem allra víðast.
Þeir sem ekki hafa náð miðum sýninguna þurfa ekki að örvænta því sýningar í janúar eru komnar í sölu á Tix.is. Hópapantanir og fyrirspurnir fara fram í gegnum netfangið leikhver@gmail.com, en sýningin hentar vel fyrir skólahópa.