Í dag kl kl. 13 efna Listasafn Árnesinga og Bókasafnið í Hveragerði í þriðja sinn til sameiginlegs viðburðar þar sem uppspretta hugmynda er skoðuð.
Í þetta sinn hefst dagskráin í Bókasafninu við Sunnumörk, kl. 13. Þar mun Hlíf Arndal, forstöðumaður bókasafnsins, kynna sýningu á málverkum Grétu Berg og steinum sem voru uppspretta þeirra verka. Hlíf mun einnig ræða ýmsar kveikjur að bókaskrifum og segja frá bókum þar sem Hveragerði kemur við sögu.
Þá verður gengið að Listasafninu þar sem Inga Jónsdóttir safnstjóri segir í örstuttu máli hvernig núverandi sýning, Nútímakonur, varð til, en því næst mun Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur flytja erindi um uppsprettu hugmynda út frá eigin verkum og með áherslu á það hversu gjöfult umhverfið, í víðum skilningi, getur verið.
Að lokum er hvatt til líflegrar umræðu gesta og framsögumanna um viðfangsefni dagskrárinnar. Þátttaka er öllum opin og án aðgangseyris.
Þessi viðburður er liður í Leyndardómum Suðurlands og styrktur af Menningarráði Suðurlands.