Uppsveitastjörnurnar eru Jóhanna Rut og Jón Aron

Sigurvegarar í Uppsveitastjörnunni, hæfileikakeppni Upplits, eru systkinin Jóhanna Rut Gunnarsdóttir og Jón Aron Lundberg frá Flúðum.

Þau komu, sáu og sigruðu í úrslitakeppninni í Aratungu á föstudagskvöldið með flutningi sínum á frumsömdu lagi Jóns Arons, Sólarlagi, sem þau léku á fiðlu og píanó. Í öðru sæti var Bjarki Bragason frá Ökrum í Grímsnesi, sem lék á píanó lagasyrpu í eigin útsetningu, og í þriðja sæti var Eva María Larsen Bentsdóttir frá Fellskoti í Biskupstungum, sem söng og trommaði lagið Cup Song úr kvikmyndinni Pitch Perfect.

Öll fengu þau vegleg verðlaun frá fyrirtækjum á svæðinu og einnig fengu viðurkenningar þær Erla Ellertsdóttir, Ninna Ýr Sigurðardóttir og Sunneva Sól Árnadóttir, sem allar stóðu sig með mikilli prýði þó að þær hefðu ekki komist í verðlaunasæti.

Úr vöndu var að ráða fyrir dómnefndina, því öll voru atriðin glæsileg og vel flutt. Um atriði Jóns Arons og Jóhönnu Rutar, sem hreppti fyrsta sætið, sagði m.a. í umsögn dómnefndar að þau hefðu bæði mikið vald á hljóðfærunum og lagið væri vel samið og melódískt.

Um atriði Bjarka, sem lenti í öðru sæti, sagði dómnefndin að það væri kraftmikið, músíkalskt og flutt af mikilli innlifun. Evu Maríu, sem var í þriðja sæti, var hrósað fyrir góða samhæfingu og skemmtilegan flutning, og kvaðst trommuleikarinn í dómnefndinni geta vottað það að erfitt væri að syngja og tromma samtímis.

Dómnefndin var skipuð þeim Margréti Bóasdóttur, söngkonu í Skálholti, Smára Þorsteinssyni, trommara hljómsveitarinnar My sweet Baklava, og Einari Bárðarsyni, „umboðsmanni Íslands“ með meiru. Þau hrósuðu þátttakendum í hástert og hvöttu þá til enn frekari dáða. Mikil stemmning var í Aratungu á keppniskvöldinu og voru hátt í hundrað gestir á öllum aldri mættir til að fylgjast með og hvetja sínar stjörnur.

Í hléi tróð upp danshópurinn „The Style Boys“, skipaður þeim Grétari Guðmundssyni, Sölva Frey Jónassyni og Sölva Svavarssyni, með frumsamið dansatriði.

Upplit þakkar Menningarráði Suðurlands og öðrum styrktaraðilum keppninnar kærlega fyrir stuðninginn – og keppendum og dómnefnd fyrir sitt framlag.

Fyrri greinAlvarlegt umferðarslys á Skeiðavegi
Næsta greinBanaslys á Skeiðavegi