Sjö atriði keppa til úrslita í Uppsveitastjörnunni, hæfileikakeppni Upplits, sem fram fer í félagsheimilinu Aratungu í kvöld kl. 20.
Ungt og efnilegt tónlistarfólk úr uppsveitunum keppir um titilinn Uppsveitastjörnuna og fær dómnefnd það vandasama verkefni að velja besta atriðið.
Eftirtaldir keppendur komust áfram í úrslit í forkeppnunum sem haldnar voru á Borg og Flúðum:
• Bjarki Bragason
• Erla Ellertsdóttir og Ninna Ýr Sigurðardóttir
• Eva María Larsen
• Erla Ellertsdóttir
• Jóhanna Rut Gunnarsdóttir og Jón Aron Lundberg
• Ninna Ýr Sigurðardóttir
• Sunneva Sól Árnadóttir
Frumleiki, skemmtun og sköpunargleði vega þungt þegar dómnefndin kveður upp sinn úrskurð. Í dómnefndinni að þessu sinni eru þau Margrét Bóasdóttir, söngkona í Skálholti, Smári Þorsteinsson, trommari hljómsveitarinnar My sweet Baklawa, og Einar Bárðarson, „umboðsmaður Íslands“ með meiru. Uppsveitastjarnan sjálf fær aðalverðlaunin – og heiðurinn – og allir þátttakendur fá auk þess veglegar viðurkenningar úr heimabyggð.
Uppsveitafólk og aðrir gestir eru hvattir til að mæta, fylgjast með spennandi keppni og hvetja sínar stjörnur áfram – en óhætt er að segja að keppendurnir eru allir sem einn afar hæfileikaríkir.
Aðgangseyrir er aðeins 500 krónur en frítt er inn fyrir 12 ára og yngri. Veitingar verða til sölu við vægu verði. Menningarráð Suðurlands styður Uppsveitastjörnuna – og einnig sveitarfélögin í uppsveitunum, sem leggja til félagsheimilin fyrir keppnirnar.