Nikki kúr heitir ný skáldsaga eftir Guðmund Óla Sigurgeirsson. Í tilefni af útgáfunni verður efnt til útgáfuhófs í Skógaskóla undir Eyjafjöllum næstkomandi laugardag, þann 31. ágúst
klukkan 14-17.
Höfundur les þar úr verki sínu og að auki mun Harpa Rún Kristjánsdóttir skáld og bóndi í Hólum á Rangárvöllum lesa upp frumsamin ljóð, Katrín Valgerður Gustavsdóttir flytur
flautuverk eftir Guðmund Óla og harmonikuleikarar flytja lög eftir sama höfund. Allir velkomnir.
Skáldsagan Nikki kúr gerist á sjöunda áratug 20. aldar. Sveitadrengur sér drauma sína rætast þegar hann fær stuðning foreldra sinna til að komast í héraðsskóla. Þar bíða ævintýri og erfiðleikar. Rokkið og stelpurnar raska hugarró saklausrar sálar.
Guðmundur Óli Sigurgeirsson er fyrrverandi kennari á Kirkjubæjarklaustri. Árið 2016 sendi hann frá sér bókina Við ána sem ekki var sem hlaut afbragðsviðtökur lesenda.