Útgáfukynning á Hellu

Í tilefni þess að út er komið nýtt bindi í ritröðinni Kirkjur Íslands verður útgáfukynning í Safnaðarheimili Oddasóknar, Dynskálum 8 á Hellu í dag kl. 16.

Nýja bókin er sú sautjánda í þessari ritröð og fjallar um friðaðar kirkjur í Rangárvallaprófastsdæmi.

Það eru Húsafriðunarnefnd, Þjóðminjasafn Íslands, Biskupsstofa, Suðurprófastsdæmi og Hið íslenska bókmenntafélag sem bjóða til kynningarinnar.

Á kynningunni munu þrír höfundar flytja stutt erindi:
1. Svavar Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður Örnefnastofnunar Íslands: Komið við á kirkjustöðum.
2. Júlíana Gottskálksdóttir listfræðingur: Rögnvaldur Ólafsson húsameistari og kirkjur hans.
3. Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur: Ámundi Jónsson snikkari og nokkur verka hans.

Kynnir er Þorsteinn Gunnarsson ritstjóri. Að erindum loknum mun séra Halldóra J. Þorvarðardóttir prófastur opna sýningu um kirkjur, gripi og minningarmörk sem byggir á ritverkinu.

Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er á þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum. Kirkjur Íslands eru glæsilegar listaverkabækur sem opna sýn inn í mikilvægan þátt í íslenskri menningarsögu. Til útgáfunnar var stofnað í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Ísland. Áætlað er að bókaflokkurinn verði 27 bindi og útgáfunni ljúki 2015.

Að útgáfunni standa Húsafriðunarnefnd, Þjóðminjasafn Íslands og Biskupsstofa. Meðútgefandi og dreifingaraðili er Hið íslenska bókmenntafélag.

Fyrri greinKæru vegna Þorláksbúðar vísað frá
Næsta greinTorkennilegt ljós í Mýrdalsjökli