Valdís og Gurrý í Selinu í kvöld

Mæðgurnar Valdís G. Gregory söngkona og Guðríður St. Sigurðardóttir píanóleikari halda tónleika í Selinu á Stokkalæk í kvöld kl. 20.

Þær munu m.a. flytja sönglög eftir Brahms, Strauss, Jón Ásgeirsson og Jón Þórarinsson. Þá flytja þær einnig aríur eftir Mozart, Bellini, Verdi og fleiri.

Valdís G. Gregory lauk miðstigi í klassískum söng hjá Signýju Sæmundsdóttur vorið 2004 og sótti síðan einkatíma hjá Ingveldi Ýri Jónsdóttur. Hún stundaði um skeið söngleikjanám við The Hartt School, tónlistardeildina í University of Hartford í Connecticut en skipti svo yfir í tónlistarkennslu með áherslu á söng við sama skóla og útskrifast brátt með Bachelor of Music gráðu. Valdís hefur sungið einsöng með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hartt Choir.

Guðríður St. Sigurðardóttir útskrifaðist með einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1978. Hún stundaði framhaldsnám við háskólann í Michigan í Ann Arbor og lauk þaðan meistaraprófi í píanóleik 1980. Sama ár hlaut hún 1. verðlaun í píanókeppni á vegum Ann Arbor Society of Musical Arts. Guðríður hefur komið víða fram, bæði hér á landi og erlendis, ýmist sem einleikari eða með öðrum tónlistarmönnum, bæði hljóðfæraleikurum og söngvurum. Hún hefur m.a. verið einleikari með Sinfóníuhjómsveit Íslands og starfaði sem píanóleikari í hljómsveitinni 1983-2004.

Aðgangseyrir er kr. 2.000 og verða kaffiveitingar að tónleikunum loknum.

Sjá nánar á www.stokkalaekur.is

Fyrri greinMagurt gegn meisturunum
Næsta greinBlóm og býflugur frá Litla-Hrauni