Afmælissýning Héraðsskjalasafns Árnesinga hefur vakið mikla athygli en hún er sýnd á risatjaldi í glugga safnsins við Austurveg á Selfossi.
Safnið á 25 ára afmæli og af því tilefni var sett upp sýning þar sem getur að líta ljósmyndir í vörslu þess, flestar úr söfnum Tómasar Jónssonar, Sigurðar Jónssonar og Jóhanns Þórs Sigurbergssonar, en rúmlega 100.000 myndir hafa verið afhentar safninu.
Átak í söfnun ljósmynda hófst í ársbyrjun 2010 og stendur enn en Gunnar Sigurgeirsson ljósmyndari hefur farið um héraðið fyrir hönd skjalasafnsins. Hluti af þeim myndum sem nú eru til sýnis eru afrakstur af þessu átaki en auk þeirra eru líka sýndar myndir úr söfnum annarra ljósmyndara.
Sýningin kallast Myndaglugginn en myndirnar á sýningunni, sem eru rúmlega 200, eru sýndar á 3×2 metra tjaldi. Sýningin er utandyra við Ráðhús Árborgar og er „opin“ milli 16:00 og 22:00 alla daga til jóla.