Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi og Vinir alþýðunnar héldu veglega sviðaveislu í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka í síðustu viku.
Frumkvöðull sviðaveislunnar er Ásmundur Friðriksson, alþingismaður og sviðin komu frá Magnúsi Geirssyni á Fornusöndum og Kristjáni Magnússyni frá Minna-Hofi. Heiðursgestur var Siggeir Ingólfsson, staðarhaldari í Félagsheimilinu Stað árin 2013 til 2019, og hélt hann margar þjóðlegar veislur á þeim tíma.
Núverandi staðarhaldarar á Stað; Ingólfur Hjálmarsson og Elín Birna Bjarnfinnsdóttir með aðstoð Ólafs Ragnarssonar sáu um veisluna nú. Þau ætla að halda veisluflöggum á lofti sem aldrei fyrr nú þegar birta fer í mannlífi eftir COVID-19.
Margir gestir voru í sviðaveislunni sem heppnaðist frábærlega. Mjög veglegt „bókalottó“ var í sviðaveislunni. Bjarni Harðarson; Bókakaffið á Selfossi og Bókaútgáfan Sæmundur gáfu vandaðar bækur í lottóið í tilefni af 15 ára afmæli Bókakaffisins. Vigdís Hjartardóttir dró að árvissri venju út nöfn hinna heppnu.