Í tilefni þess að 10 ár eru liðin frá því platan Þar sem himin ber við haf kom út ætla Jónas Sig og Lúðrasveit Þorlákshafnar að blása til glæsilegra tónleika í Háskólabíói 11. nóvember.
Mörgum kann að finnast það ótrúlegt að það séu liðin 10 ár frá því þessi hópur hélt þrenna uppselda útgáfutónleika í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn, þar sem um 1.200 manns komu og sáu. Í framhaldinu fóru fjölmörg lög á flug sem tilheyra plötunni, en þar má nefna Hafið er svart, Þyrnigerðið og Fortíðarþrá.
Á tónleikunum fyrir 10 árum var einnig sýnt grafískt listaverk unnið af Þórarni Friðrikssyni sem hefur síðan þá þróað það enn frekar og unnið í samstarfi við Egil Kristbjörnsson. Það mun án efa njóta sín einstaklega vel á stóra skjánum í Háskólabíói og má með sanni segja að tónleikarnir verða veisla fyrir öll skilningarvit.
Ásamt Jónasi Sig og Lúðrasveit Þorlákshafnar koma fram þeir Ómar Guðjónsson á gítar, bassaleikarinn Guðni Finnsson, Arnar Þór Gíslason spilar trommur og Tómas Jónsson leikur á hljómborð.
Í myndbandinu efst í fréttinni má sjá og heyra lagið Inn í berginu í myndbandi sem fangar vel þá mögnuðu stemningu sem var á tónleikunum fyrir 10 árum.
Miðasala fer fram á tix.is