Vel heppnað Haustgildi

Ljósmynd/Harpa Rún Kristjánsdóttir

Um síðustu helgi var hátíðin Haustgildi, menning er matarkista, haldin á Stokkseyri í annað sinn.

„Að þessu sinni var miðja hátíðarinnar í Hafnargötunni á Stokkseyri, nánar tiltekið fyrir framan menningarverstöðina Hólmaröst. Fleiri aðilar tóku þátt núna en í fyrra og fleiri viðburðir bættust við. Þar ber helst að nefna að Sólheimar voru með og tóku með sér alla sína reynslu og mikið vöruúrval og það var mikill fengur að hafa þau með okkur á hátíðinni. Sápufólkið kom líka með vörur unnar úr hreindýrafitu sem lagðist svo vel í gesti að Sápufólkið kláraði allar þær vörur sem þau komu með,“ segir Pétur Már Guðmundsson, einn af aðstandendum hátíðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

„Báða dagana var upplestur á Brimrót. Á laugardag lásu þau Harpa Rún Kristjánsdóttir og Pedro Gunnlaugur Garcia úr sínum verkum og Jón Hjartarson og Draumey Aradóttir lásu svo upp úr nýútkomnum ljóðabókum sínum á sunnudeginum. Það var frábært að fá þessa höfunda í heimsókn og þetta er þegar orðinn fastur liður á Haustgildi.“

Ljúft að ljúka deginum í Stokkseyrarkirkju
„Dagskrá laugardagsins lauk líka með tónleikum Eyjólfs Eyjólfssonar og Luke Starkey í Stokkseyrarkirkju, sem voru einstaklega vel heppnaðir en fyrr um daginn hafði Júlíus Óttar spilað á Brimrót af sinni alkunnu snilld. Þessi tónleika atriði og sérstaklega í Stokkseyrarkirkju eru vonandi komin til að vera. Það var einkar ljúft að ljúka deginum með tónleikum í Stokkseyrarkirkju. Ölvisholt, Korngrís, Tariello og Arabær tóku þátt að nýju og runnu vörur þeirra sem fyrr vel ofan í gesti. Öll gallerí á Stokkseyri tóku líka þátt sem fyrr og nutu gestir þess vel, sem og aðstandendur.“

Kominn til að vera
„Undirbúningur er þegar hafin að Haustgildi næsta árs, enda er óhætt að segja nú að viðburðurinn sé kominn til að vera og er það afar gleðilegt. Breytingar og fyrirkomulag á Haustgildi 2023 verður kynnt í góðum tíma. Leiðarstef fyrir næsta ár verður meira samstarf náttúrulega og fá fleiri með á hátíðina, njóta uppskeru og fagna haustinu með okkur á Stokkseyri,“ segir Pétur að lokum.

Upplestur á Brimrót. Ljósmynd/Aðsend
Harpa Rún Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend
Pedro Gunnlaugur. Ljósmynd/Aðsend

Fyrri greinÓmar Ragnarsson hlýtur náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti
Næsta greinÁsdís Þóra semur við Selfoss