Í síðustu viku voru veitt verðlaun í ensku smásagnasamkeppninni, sem Félag enskukennara á Íslandi stendur fyrir. Eins og sunnlenska.is greindi frá á dögunum þá sópuðu nemendur Grunnskólans í Hveragerði til sín verðlaunum í keppninni.
Verðlaunin voru afhent í Veröld – húsi Vigdísar þann 17. febrúar síðastliðinn en það var Bryony Mathew, sendiherra Bretlands á Íslandi sem afhenti verðlaunin.
Í 5. bekk og yngri sigraði Emilía Guðbjörg Hofland Tryggvadóttir í 5. AJK fyrir söguna Alien In a Human’s World og Magdalena Sigurjónsdóttir í 5. AÞJ og Matthildur Sara Ágústsdóttir í 5. AÞJ hlutu einnig verðlaun fyrir sínar sögur.

Hvergerðingar tóku einnig öll verðlaunin í 6.–7. bekk en Snædís Freyja Stefánsdóttir í 7. ILH sigraði með söguna Mizuki Cat. Baltasar Björn Sindrason í 6. LH og Heiðdís Lilja Sindradóttir í 6. GH voru einnig verðlaunuð fyrir sínar sögur.
Í flokknum 8.–10. bekkur sigraði Bryndís Klara Árnadóttir í 10. MÍ með söguna Allan. Þetta er fjórða sinn sem Bryndís Klara tekur þátt í keppninni og í þriðja sinn sem hún hlýtur verðlaun.

Keppnin er haldin í tilefni af evrópska tungumáladeginum þann 26. september og taka nemendur í 5.-10. bekk í Hveragerði þátt á hverju ári. Smásögurnar verða að vera skrifaðar á ensku og tengjast ákveðnu þema sem að þessu sinna var orðið “FAKE”.
