Þessa dagana stendur yfir ljósmyndasýningin Hafið er svart í Listagjánni í Bókasafni Árborgar á Selfossi. Þar sýnir Ægir Óskar Gunnarsson, vélstjóri og ljósmyndari frá Selfossi, myndir sem hann hefur tekið á sínum sjómannsferli.
Myndaröðin var valin besta myndaröðin í ljósmyndakeppni Morgunblaðsins og 200 Mílna og birtist í heilu lagi í Morgunblaðinu. Sýninguna setur Ægir Óskar upp í samstarfi við Christine Gísladóttur, ljósmyndara.
„Myndaröðin eru ljósmyndir sem ég hef tekið á ferli mínum sem sjómaður. Verkin leyfa ykkur að skyggnast inn í falin heim sjómanna við Íslandsstrendur þar sem þeir berjast við náttúruöflin uppá hvern einasta dag fyrir land og þjóð,“ segir Ægir Óskar, sem er vélstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK-255.
Myndirnar á sýningunni eru til sölu með uppboðsleið, þar sem lágmarksverð er 25.000 kr fyrir ljósmynd og verður allur ágóði gefin óskiptur til Kvenfélagsins Hringsins. Félagið hefur að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna og er helsti styrktaraðili Barnaspítala Hringsins.
Þeir sem hafa áhuga á að styrkja gott málefni og fá glæsilegar ljósmyndir í staðinn geta sent sitt boð á aegirgunnarsson@gmail.com þar sem boðið verður skrásett og í framhaldi af því verða verkin afhent eftir sýninguna til hæstbjóðanda.