Verulegar – Leiðsögn með Brynhildi

Sunnudaginn 19. nóvember kl. 15 mun Brynhildur Þorgeirsdóttir segja frá verkum sínum á sýningunni Verulegar, Brynhildur Þorgeirsdóttir · Guðrún Tryggvadóttir, sem nú stendur í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Brynhildur mótar skúlptúra og aðal efniviður hennar er steinsteypa og gler, sem hún nýtir til þess að skapa forvitnilegar verur, fjöll og landslag á nýstárlegan hátt. Brynhildur lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1979, en fór síðan í framhaldsnám við Gerrit Rietveld Akademíuna í Hollandi, Orrefors glerskólann í Svíþjóð, Listaháskóla í Kaliforníu og Pilchuck Glerskólann í Washington-ríki í Bandaríkjunum og þar hefur hún sinnt kennslu nokkur undanfarin ár. Frá upphafi ferils síns hefur Brynhildur verið í framvarðarsveit íslenskra myndhöggvara og var formaður Myndhöggvarafélagsins 1992-95. Verk hennar hafa verið sýnd víða s.s. í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum og hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, sem víða má finna bæði innan- og utandyra á opinberum stöðum, innanlands sem erlendis. Brynhildur er fædd og uppalin í Hrunamannahreppi, en býr nú í Reykjavík. Guðrún er fædd og uppalin í Reykjavík, en býr nú í Hveragerði.

Á sýningunni er sjónum beint að viðamiklum listferli þeirra Brynhildar og Guðrúnar, sem spannar nær fjóra áratugi. Þær eru öflugar konur sem gerðu sig gildandi á vettvangi myndlistar í kjölfar umbrotatíma áttunda áratugs síðustu aldar og þær eru enn að vekja eftirtekt með verkum sínum.

Verk þeirra sáust fyrst opinberlega saman á listahátíðinni Gullströndin andar snemma árs 1983 í Reykjavík, en það var listahátíð sem mótuð var af ungum listamönnum og vakti mikla athygli og er í dag sveipuð goðsagnalegum blæ í hugum margra. Nú tæpum þrjátíu og fimm árum síðar gefst tækifæri til þess að fá innsýn í það sem þær voru að fást við þá og bera það saman við það sem þær eru að fást við í dag. Á sýningunni í Listasafni Árnesinga má sjá verk frá níunda og tíunda áratugnum en flest verkanna eru unnin á síðustu þremur árum.

Á sunnudaginn gefst tilvalið tækifæri fyrir gesti að kynnast verkum Brynhildar og starfsaðferðum í samtali við listamanninn.

Sýningin mun standa til og með 17. desember. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á leiðsögnina/listamannsspjallið.

Fyrri greinHalldóra Birta semur við Selfoss
Næsta greinFrostfiskur lokar í Þorlákshöfn