Laugardaginn 23. september kl. 15 verður sýningin, Verulegar, Brynhildur Þorgeirsdóttir · Guðrún Tryggvadóttir, opnuð í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Á sýningunni er sjónum beint að viðamiklum listferli Brynhildar Þorgeirsdóttur og Guðrúnar Tryggvadóttur sem spannar nær fjóra áratugi. Kynntar eru tvær öflugar konur sem gerðu sig gildandi á vettvangi myndlistar í kjölfar umbrotatíma áttunda áratugs síðustu aldar og eru enn að setja mark sitt á íslenska listasögu.
Leiðir þeirra lágu saman þegar þær hófu nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974 og báðar hafa þær dvalið við nám og störf í Evrópu og Bandaríkjunum til lengri og skemmri tíma. Báðar hafa sterk tengsl við Árnessýslu; Brynhildur fædd og uppalin að Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi en býr nú í Reykjavík og þó Guðrún sé fædd og uppalin í Reykjavík þá á hún ættir að rekja til Hrunamannahrepps og er nú búsett í Hveragerði.
Veitt er innsýn í þá þróun sem orðið hefur á verkum listamannanna og sýnt hvernig myndlist þeirra hefur einkennst af heilsteyptum myndheimi allt frá byrjun. Brynhildur mótar kynjaverur, fjöll og landslag m.a. úr steinsteypu og gleri en Guðrún málar veruleika kynslóða og orku í tíma og rúmi með olíulitum á striga.
Þó flest verkanna séu unnin á síðustu þremur árum eru einnig á sýningunni verk frá upphafi ferils þeirra Brynhildar og Guðrúnar þar sem greina má tíðaranda níunda áratugarins þegar form og inntak verkanna birtu viðhorf í andstöðu við hefbundna myndlist þess tíma. Sýningarstjóri er Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga en Heiðar Kári Rannversson listfræðingur ritar grein í sýningarskrá sem gefin er út um sýninguna.
Sýningin mun standa til og með 17. desember. Safnið er opið kl. 12-18 alla daga í september en frá og með 1. október er það opið fimmtudaga til sunnudaga.
Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á opnun sýningarinnar.