Vestfirska forlagið á Þingeyri hefur hafið endurútgáfu á ævintýrum Basils fursta og eru nú tvö hefti komin út.
Ævintýrin um Basil fursta komu fyrst út á Íslandi 1939-1941 í þremur þykkum bókum. Síðan komu þau út í fjölmörgum heftum, en hvert þeirra er sjálfstæð saga. Ævintýri þessi gerast víða um heim en höfundur Basil fursta er Daninn Niels Meyn. Útgefandi var Sögusafn heimilanna en þeirri útgáfu stýrði upphaflega Árni Ólafsson.
„Í þeirri glæpahrinu sem gengið hefur yfir þjóðina á undanförnum árum og ekki sér fyrir endann á, hefur Vestfirska forlagið ákveðið að gamni sínu að kalla á furstann til að smúla dekkið,“ segir Hallgrímur Sveinsson, Brekku í Dýrafirði og bókaútgefandi hjá Vestfirska forlaginu.
Nú er 2. hefti af Basil fursta komið út. Það nefnist Ævintýri í næturklúbbi og má búast við að hvert heftið komi nú á fætur öðru.
Sögurnar af Basil fursta eru í senn spennandi og skemmtilegar. Hvert hefti er sjálfstæð saga og kosta aðeins 950,- kr.
Á myndinni með þessari frétt veitir Bjarni Harðarson, bóksali, Basil fursta viðtöku. Á myndinni eru einnig Glúmur Gylfason en hans fyrsta vinna sem unglingur var í Prentsmiðju Guðmundar Jóhannssonar við prentun Basil fursta og Björn Ingi Bjarnason hjá Vestfirska forlaginu.