Vetrarstarf Karlakórs Selfoss að hefjast

Karlakór Selfoss. Ljósmynd/Stúdíó Stund

Vetrarstarf Karlakórs Selfoss hefst formlega í kvöld með kynningarkvöldi í karlakórsheimilinu við Eyraveg 57 kl. 19:30. Þar verður starfsemi komandi vetrar kynnt og nýir söngmenn boðnir velkomnir.

Fyrsta verkefni vetrarins var reyndar í gær, þar sem kórinn hélt vel heppnaða tónleika í Skálholti með Karlakór Stokkhólms.

Mörg spennandi og skemmtileg verkefni eru framundan og söngskrá vetrarins verður kynnt í kvöld en kórinn æfir á mánudagskvöldum kl. 19:30-22:00. Komandi starfsár er það 60. í sögu kórsins, en hann var stofnaður 2. mars árið 1965, og mun verkefnaskrá vetrarins spanna bestu lög kórsins í 60 ár.

Um og yfir 60 söngmenn hafa starfað með kórnum undanfarin ár og stjórnandi Karlakórs Selfoss er eins og undanfarin tíu ár, Skarphéðinn Þór Hjartarson og píanóleikari er Jón Bjarnason, sem starfað hefur með kórnum í 15 ár.

Nýir félagar eru sérstaklega boðnir velkomnir á kynningarkvöldið í kvöld og eldri söngmenn eru hvattir til að mæta.

Fyrri greinÞrír kærðir fyrir hélaðar rúður
Næsta greinHvergerðingar skipa afmælisnefnd