„Við erum mjög spennt að frumsýna“

Leikritið Bangsímon eftir Peter Snickars verður frumsýnt hjá Leikfélagi Selfoss laugardaginn 31. október kl. 15:00 í Litla leikhúsinu við Sigtún.

Það er heimakonan Guðfinna Gunnarsdóttir sem leikstýrir leikgerð Peter Snickars en hún var skrifuð eftir hinum ástsælu sögum A.A. Milne sem flestir þekkja og var það Sigríður Karlsdóttir sem þýddi leikritið, en þýðing söngtexta var í höndum Hönnu Láru Gunnarsdóttur.

„Við skoðuðum mörg barnaleikrit áður en við ákváðum að setja Bangsímon aftur á svið. Ég mundi vel eftir síðustu uppfærslu, tónlistinni og búningunum og fannst tuttugu ár alveg nógu langur tími á milli uppsetninga. Í minningunni var þetta fallegt. Bangsímon og hans lífsspeki hefur mér alltaf fundist mjög falleg,“ sagði Guðfinna leikstjóri í samtali við sunnlenska.is.

„Það er gríðarlega gaman að vinna með þessum leikhópi því það er vandað svo rosalega til verka. Það er mikill metnaður í að nálgast barnasýningu af sama metnaði og sýningu fyrir fullorðna. Þess vegna er til dæmis mikið í lagt í sambandi við búninga og förðun,“ sagði Guðfinna ennfremur og bætti við að það væri frábær stemmning í hópnum.

„Já, ég er mjög stolt af þeim, þau eru búin að leggja sig mikið fram. Þó að ég sé hlutdræg, félagi í Leikfélagi Selfoss, þá get ég alveg sagt að umgjörðin hérna er til algjörrar fyrirmyndar og við erum mjög spennt að frumsýna.“

Bangsímon er hugljúft og skemmtilegt leikrit fyrir börn á öllum aldri. Það var fyrst sett á svið hjá leikfélaginu fyrir 20 árum síðan og nú er komið að næstu kynslóð að kynnast Bangsímoni og vinum hans í Hundraðekruskógi.

Áhugasömum áhorfendum er bent á að sýningarfjöldi er takmarkaður en aðeins eru áætlaðar tíu sýningar og mun þeim ljúka í nóvember.

Fyrri greinStefán snýr heim
Næsta greinSelfoss sigraði en Mílan tapaði