Að venju var haustönn Tónsmiðju Suðurlands viðburðarík. Nýr blandaður kór var stofnaður og hélt sína fyrstu tónleika um miðja önn.
Kórinn hefur svo æfingar að nýju um miðjan janúar. Nemendur og kór tróðu upp í tilefni 70 ára hernámsafmælis sem var haldið í Árborg þann 6. nóvember sl. og gerðu það með sóma.
Öflugt Suzuki nám er á Hvolsvelli þar sem yngstu nemendur skólans leika á fiðlur og píanó. Þetta nám er í umsjá Guðrúnar Markúsdóttur.
Söngdeild skólans er óhemju öflug og stefna nokkrir nemendur hennar á grunnstig í rytmískum söng í vor. Systurnar Þuríður Marín og Margrét Harpa Jónsdætur unnu söngkeppni Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þær hafa undanfarin ár verið í söngnámi í Tónsmiðju Suðurlands.
Þrennir jólatónleikar voru haldnir í desember, tvennir á Selfossi og einir á Hvolsvelli.
Gaman er að geta þess að Örn Eldjárn gítarkennari vann jólalagakeppni Rásar 2 enda er hann mikið jólabarn.
Við þökkum enn og aftur eftirtöldum sveitarfélögum samstarfið á liðnu ári: Árborg, Ásahreppur, Rangárþing eystra og Skeiða og Gnúpverjahreppur. Þessi sveitarfélög hafa haft það hugrekki og þann dug að bjóða íbúum sínum upp á val í tónlistarnámi. Einnig á Karlakór Selfoss þakkir skilið fyrir stuðninginn og samstarfið á árinu svo og náttúrulega nemendur okkar allir.
Nú er að hefjast ný önn hjá okkur og fullt af námskeiðum í boði. Hvetjum við áhugasama um að hafa samband við okkur og sjá hvað er í boði.
Fréttatilkynning